-5 C
Selfoss
Home Fréttir Uppskrift að góðri nautarlund

Uppskrift að góðri nautarlund

0
Uppskrift að góðri nautarlund
Hjalti Tómasson.
Hjalti Tómasson.

Sunnlenski matgæðingurinn er Hjalti Tómasson. Ég vil byrja á að þakka góðum vini mínum Pétri Gunnarssyni fyrir traustið. Eins og hann veit ásamt mörgum öðrum þá finnst mér betra að borða góðan mat heldur en að elda hann. Ég er mjög fátíður gestur í eldhúsi nema til þess að borða auðvitað en sést oft við grillið. Finnst mér þá við hæfi að koma með uppskrift að góðri nautarlund því á þessum tíma er alveg nauðsynlegt að grilla góðar steikur í þessu dásemdarveðri sem við erum búin að fá upp á síðkastið.

Í góðri grillveislu er nauðsynlegt að hafa forrétt svona á meðan maður undirbýr steikina og ekki síður góðan og sætan eftirrétt til þess að bræða í holurnar.

Verði ykkur að góðu.

Forréttur:

Klettasalat, parmaskinka, melóna og Balsamik edik með gljáa.
Klettasalatinu er dreyft neðst á diskinn, 2–3 sneiðar af parmaskinku lagðar yfir, melónan skorin í sneiðar og sett ofan á salatið og að lokum dreyft balsamik ediki með gljáa yfir.

Aðalréttur:

Nautalund
1 stk. nautalund frá Villt og Alið
Gott er að vera búinn að taka nautalundina úr kæli fyrir hádegi og setja vel af salt og pipar yfir hana. Láta hana síðan standa við stofuhita. Grill eru misjöfn hjá fólki og ætla ég því ekki að setja tímamörk á eldamennskuna. Gott er að byrja á því að loka steikinni við háan hita og lækka síðan undir. Að mínu mati er mín steik alltaf medium rare en smekkur manna persónubundinn. Hægt er að miða við u.þ.b. 50°C kjarnhita. Yfirleitt tekur það 2–3 bola 330 ml að grilla eina lund (fer eftir því hver grillar). Í blálokin þá set ég alltaf létta stroku af hunangi yfir kjötin til þess að fá örlítið sætt bragð. Tomassi Amarone fer vel með þessari steik.
Meðlæti eftir smekk hvers og eins.

Eftirréttur:

Sumargleði
120 g flórsykur
200 gr rjómaostur
4 dl. rjómi
1 tsk. vanilludropar
1 kassi dökkt hraun
1 krukka/ferna kirsuberjasulta

Rjóminn er þeyttur, rjómaostur og flórsykur pískað saman og vanilludropum bætt út í. Þeytti rjóminn settur saman við og hrært rólega í því. Þegar búið er að blanda þessu saman er þessu dreift yfir hraunbitana sem eru muldir í botninn á eldföstu móti. Í lokin er kirsuberjasósunni hellt yfir einnig má bæta við ferskum berjum og muldu hrauni ofan á.

Að lokum vil ég skora á góðan vin minn Brynjar Svansson að gerast næsti matgæðingur.