-6 C
Selfoss

Ýmsar nýjungar á Sumartónleikum í Skálholti

Vinsælast

Sumartónleikar í Skálholti eru alltaf með stærstu viðburðum ársins í tónlistarlífinu og hafa verið það um árabil. Ýmsar nýjungar eru kynntar til leiks á hátíðinni í ár á sama tíma og listræn stefna hátíðarinnar er sú sama og frá upphafi: að leika barokktónlist á upprunahljóðfæri og kynna nýja tónlist.

Hátíðin var stofnuð af Helgu Ingólfsdóttur árið 1975 og hefur starfað óslitið síðan. Eitt af aðalsmerkjum hátíðarinnar er að á hverju ári er valið staðartónskáld og pantað af því verk til frumflutnings auk þess að eldri verkum eru gerð góð skil. Í ár er staðartónskáld hátíðarinnar Þuríður Jónsdóttir en hún er eitt mest flutta tónskáld Íslendinga í dag. Elektra kammersveit verða með tónleika með verkum Þuríðar á opnunarhelgi hátíðarinnar og svo munu Barokkbandið Brák frumflytja nýtt verk eftir Þuríði á lokahelgi hátíðarinnar.

Eins og vanalega koma erlendir gestir á hátíðina. Frá Danmörku kemur Lene Langballe, en hún mun flytja verk fyrir cornetto ásamt Láru Bryndísi Eggertsdóttur, orgelleikara. Cornetto var vinsælt hljóðfæri á 16. og fram á 17. öld, ekki síst sökum þess hversu það minnir á mannsröddina. Ein af grundvallarhugmyndum hátíðarinnar kemur einstaklega vel fram í kynningartexta pólska sönghópsins Simultaneo sem segist leita að sameiginlegum einkennum barokk og samtímatónlistar, láta þannig gamalt og nýtt næra hvort annað.

Hátíðin vinnur með fleiri ólíka póla en gamalt og nýtt, innlent og erlent. Einnig er leitast við að sýna listamenn á ólíkum stað í þroskaferlinu og er það hátíðinni hjartans mál að veita nýliðum í tónlistarlífinu brautargengi. Ásbjörg Jónsdóttir, Birgit Djupedal og Heiðdís Hanna Sigurðardóttir eru nýútskrifaðar úr sínu tónlistarnámi. Þær munu flytja dagskrá þar sem þær fjalla um tilveruna á sinn persónulega, ljóðræna hátt. Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir flytur sjöttu sellósvítu Bach ásamt eigin efni á tónleikum sínum „Elsku, elsku“. Elja Kammersveit kemur í fyrsta sinn fram á hátíðinni og flytur ný verk, þar á meðal frumflytja verk eftir Guðmund Stein Gunnarsson og leika verk eftir búlgarska tónskáldið Dobrinku Tabakova, en tónleikar Elju heita eftir verki Tabakova, Eftir ólíkum leiðum. Elfa Rún Kristinsdóttir fiðluleikari, Sabine Erdmann sembal- og orgelleikari og Magnus Andressen sem spilar á teorbu, gamalt barokkstrengjahljóðfæri sem er skylt lútunni, munu svo loka hátíðinni með verkum Bibers og Schmelzers.

Eitt af því sem gerir hátíðina sérstaka er dvöl listamannana á staðnum vikuna fyrir tónleika þar sem þeir vinna og skapa í þessu einstaka umhverfi. Þarna verður til menning, þekking sem flyst svo áfram á milli listamanna, til áhorfenda, frá viku til viku – sumars til sumars. Það hefur alltaf verið stefna hátíðarinnar að áhorfendur eigi að geta notið tónlistar í stórfenglegu umhverfi Skálholts óháð efnahag og því er enginn aðgangseyrir rukkaður á tónleikana. Góðfúslega er tekið á móti frjálsum framlögum þeirra sem vilja styrkja hátíðina á tónleikum og heimasíðu.

Nýráðnir listrænir- og framkvæmdastjórnendur hátíðarinnar eru hjónin Páll Ragnar Pálsson tónskáld og Tui Hirv söngkona og tónlistarfræðingur.

Dagskrá Sumartónleika í Skálholti er nú aðgengileg á heimasíðu hátíðarinnar, www.sumartonleikar.is.

Nýjar fréttir