-0.5 C
Selfoss

Járnkrakkinn í Barnaskólanum

Vinsælast

Á íþrótta- og útivistardögum sem fram fóru í lok nýafstaðins skólaárs héldu nemendur í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri keppnina Járnkrakkinn sín á milli. Járnkrakkinn er þríþraut þar sem þriggja nemenda lið spreytir sig á því að synda, hjóla og hlaupa vegalengd á sem skemmstum tíma. Fyrsti liðsmaðurinn synti 300 metra í sundlauginni á Stokkseyri, að því loknu hjólaði annar liðsmaðurinn frá sundlauginni vestur Fjörustíg að skólahúsnæðinu á Eyrarbakka þar sem þriðji liðsmaðurinn tók við og hljóp austur Fjörustíg að skólahúsnæðinu á Stokkseyri. Nemendur í 7. – 9. bekk tóku þátt í þessum fyrsta Járnkrakka og voru sex lið skráð til leiks. Það voru þau Böðvar Arnarson, Sunna M. Kjartansdóttir og Þórarinn Helgi Jónsson sem sigruðu í ár á tímanum 42 mínútur og 50 sekúndur. Í öðru sæti, fast á hæla sigurliðsins, urðu þeir Árni Valur Gíslason, Vésteinn Haukur Bjarnason og Eiður Orri Pálsson á tímanum 43 mínútur.

Járnkrakkinn er hugmynd heimilisfræðikennara Barnaskólans, Lene Drejer Klith, en hún situr í heilsueflingarteymi skólans og hefur gengið með þessa hugmynd í maganum í nokkurn tíma. Fyrirmyndin er hin víðfræga þríþrautarkeppni Ironman. Þess má geta að Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri hefur verið heilsueflandi grunnskóli síðan 2016.

 

Nýjar fréttir