3.9 C
Selfoss

Nýtt apótek opnað á Selfossi

Vinsælast

Nýtt apótek, Apótek Suðurlands ehf., var opnað við Austurveg 24 á Selfossi í vikunni. Apótekið er í eigu lyfjafræðinganna Eysteins Arasonar og Hörpu Viðarsdóttur og Guðmundu Þorsteinsdóttur lyfjatæknis, en þau hafa öll áður starfað í apótekunum á Selfossi og í Rangárvallasýslu. Apótekið er sjálfstætt starfandi apótek og hvorki hluti af lyfjakeðju né annarri verslunarkeðju.

F.v.: Guðmunda Þorsteinsdóttir lyfjatæknir, Eysteinn Arason lyfjafræðingur, Hanna Valdís Garðarsdóttir lyfjatæknir og Harpa Viðarsdóttir lyfjafræðingur.

Ein af ástæðum þess að þau Eysteinn, Harpa og Guðmunda ákváðu að opna Apótek Suðurlands er sú að Selfoss og nágrannabyggðir eru ört vaxandi og blómstra um þessar mundir. „Undanfarin ár hefur fákeppni ríkt í smásölu lyfja, ekki síst á Suðurlandi. Nokkur apótek í einkaeigu eru á höfuðborgarsvæðinu en einnig á Akranesi, Akureyri, Reykjanesbæ, Siglufirði, Ólafsvík og nú Apótek Suðurlands á Selfossi. Það er von okkar að Selfyssingar og Sunnlendingar allir kunni vel að meta þessa viðbót við verslun og þjónustu á svæðinu,“ segir Harpa.

Apótek Suðurlands er staðsett miðsvæðis á Selfossi við Austurveg 24. Aðgengi er gott og bílastæði framan við húsið. Einnig eru næg bílastæði vestan við húsið. Opnunartíminn verður til að byrja með á virkum dögum kl. 9–18 og á laugardögum kl. 10–16.

Persónuleg og fagleg þjónusta
„Við munum leitast við að veita viðskiptavinum okkar persónulega og faglega þjónustu. Auk lyfja og hjúkrunarvara verðum við með úrval af vítamínum, fæðubótarefnum og snyrtivörum í apótekinu,“ segir Harpa.

Í Apóteki Suðurlands verður boðið upp á ókeypis heimsendingu lyfseðilskyldra lyfja fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. Einnig verða lyf send með pósti sé þess óskað. Þau taka að sér lyfjaskömmtun, vélskömmtun í rúllum og stefna að því að bjóða einnig upp á hefðbundna handskömmtun í box. Þá er hægt að fá mældan blóðþrýsing. Ekki er greitt sérstaklega fyrir mælinguna. Hægt er að panta tiltekt á lyfjum og leita upplýsinga um lyf í síma 482 1182 eða á netfanginu apotek@apoteksudurlands.is. Lyfin verða þá tilbúin til afhendingar þegar fólki hentar.

Höfum biðina eins stutta og mögulegt er
„Apótekið er bjart og rúmgott með góðu aðgengi og nægum bílastæðum, bæði fyrir framan húsið og vestan. Á meðan beðið er geta viðskiptavinir sest niður, slakað á og litið í blöð og tímarit, en við munum leitast við að hafa biðina eins stutta og mögulegt er. Einnig er aðstaða fyrir börnin til að sitja og skoða bækur,“ segir Harpa.

Nýjar fréttir