Þann 9. júní síðastliðinn var haldið upp á 35 ára afmæli Pylsuvagnsins á Selfossi. Var það gert með því að bjóða fólki upp á fríar pylsur og Svala. Mikið af fólki var í bænum þá helgi og því margir sem litu við hjá Ingunni Guðmundsdóttur og stelpunum í Pylsuvagninum og fögnuðu afmælinu.
Fyrsti vagninn var þrír fermetrar
„Við stofnuðum þetta, ég og fyrrverandi maðurinn minn, 9. júní 1984. Þá var vagninn þrír fermetrar. Það er nokkuð mikill munur frá því sem er í dag því hann er 86 fermetrar núna. Þetta byrjaði þannig að við keyptum lítinn vagn sem var ekki með neitt aukalega, ekkert klósett eða neitt. Fyrsta stækkun vagnsins var upp í 7 fermetra en 1988 stækkuðum við svo upp í 14 fermetra. Þá kom klósett og fyrsta bílalúgan á Selfossi. Þá vorum við með vagninn við Tryggvaskála. Vagninn var fyrst hér við brúna en síðan þurftum við að færa hann 1988 að Tryggvaskála. Við vorum þar í sjö ár en fluttum svo aftur hingað 1995,“ segir Ingunn.
Algjör bylting þegar við stækkuðum í núverandi stærð
Þegar Pylsuvagninn flutti aftur á núverandi stað 1995 var hann stækkaður í 22 fermetra. Ingunn segir að síðan hafi hann sprengt allt utan af sér. Hann var þá stækkaður í núverandi stærð sem er 86 fermetrar. „Nú erum við með lager og frysti hérna. Það var algjör bylting þegar það kom. Ég hef rekið þetta ein síðastliðin tuttugu ár.“
Einstakt að taka niður pantanir út í bíl
Þegar Ingunn er spurð hvaða gildi Pylsuvagninn hafi fyrir Selfyssinga segir hún að það viti allir hvar Pylsuvagninn sé. „Ég er ekki bara með kúnna hér á Selfossi heldur um allt land má segja. Mörgum finnst þessi þjónusta að taka pantanir út í bíl alveg einstök. Kúnninn er svo ánægður. Það er kannski tíu bíla röð en verið að vinna í fyrstu sex. Þetta róar kúnnana.“
„Við fáum mikið hrós fyrir þjónustuna og sérstaklega fyrir hvað það séu góðar pylsur hérna. Það gerir náttúrulega sinnepið sem ég sér laga. Það má segja að það sé lykillinn að þessu. Einnig að við sjóðum pulsurnar og færum þær svo yfir í gufu, þannig að þær liggja ekki heitu vatni. Þær eru því aldrei vatnssíaðar.“
Er komin með lítinn vagna sem heitir „Pylsukrútt“
Ingunn brosir og segist vera komin í útrás. „Ég er komin með lítinn sjö fermetra vagn sem heitir „Pylsukrútt“. Barnabörnin mín ætla að vera með þennan vagn og fara með hann um landið á útihátíðir, í afmæli og brúðkaup. Við vorum t.d. um daginn hér á Kótelettunni, bæði í Miðbæjargarðinum og hjá Hvíta húsinu. Þeir hafa fengið mikið hrós fyrir pulsurnar. Þetta er svona smá útrás hjá mér,“ segir Ingunn.
Tvö til þrjú hundruð stelpur hafa unnið í Pylsuvagninum
Þegar Ingunn er spurð út í starfsfólkið upplýsir hún að hún hafi nær eingöngu verið með stelpur en þó fimm stráka þegar allt er talið. Í gegnum tíðina telst henni til að fjöldinn sé á milli tvö og þrjú hundruð. „Ég vil helst fá stelpur sem ekki eru búnar að vinna neins staðar annars staðar. Þá get ég þjálfað þær upp. Ég vil kenna þeim að vinna. Margar hafa verið hér lengi. Sú sem var lengst var í 13 ár.“
Margir koma við og fá sér pulsu
Margir landsþekktir einstaklingar koma við í Pylsuvagninum þegar þeir eiga leið um Selfoss. Má sem dæmi nefna tónlistarmennina Bubba Morthens og Jogvan Hansen, Helgu Braga leikkonu, Guðmund landsliðsþjálfara, Dag borgarstjóra, Bjarna Ben ráðherra og marga fleiri. Flestir sem koma við fá sér pylsu en Ingunn býður líka upp á ýmislegt fleira. Það nýjasta er veganpylsa. Á matseðlinum eru líka hamborgarar, samlokur og „fisk & ships“, svo eitthvað sé nefnt.
Jákvæðar og duglegar stelpur sem vinna með okkur
„Mér lýst rosalega vel á framtíðina. Við erum búnar að reka þetta saman frá upphafi Þórdís dóttir mín og ég. Mér finnst alltaf jafn gaman að fara í vinnuna. Ég er líka þakklát fyrir starfsfólkið en það er því að þakka hvað þetta gengur vel. Þetta eru jákvæðar og duglegar stelpur sem eru eftirsóttar í vinnu annars staðar eftir að þær eru búnar að vera í vinnu hjá mér.“ Þegar Ingunn er spurð út í hvaða áhrif nýi miðbærinn eigi eftir að hafa á hennar rekstur segir hún: „Nýi miðbærinn og allt sem honum fylgir á án efa eftir að styrkja starfsemina hjá okkur, ég er ekki í nokkrum vafa um það,“ segir Ingunn.