-6.7 C
Selfoss
Home Fréttir Þykir gaman að grilla og baka

Þykir gaman að grilla og baka

0
Þykir gaman að grilla og baka
Pétur Gunnarsson.

Pétur Gunnarsson er sunnlennski matgæðingurinn. Ég vil byrja á því að þakka Ívari Grétarssyni fyrir traustið. Ég er ekki sá liðtækasti í eldamennskunni en mér þykir mjög gaman að grilla og baka og ferst það bara nokkuð vel úr hendi. Að minnsta kosti hefur enginn kvartað enn. Í góðri grillveislu er nauðsynlegt að hafa forrétt, aðalrétt og eftirrétt svo veislan heppnist sem best og afar mikilvægt að fólk gefi sér góðan tíma til að borða og drekka. Mér þykir gaman að ferðast um heiminn með fjölskyldu og vinum og bera réttirnir merki þess.

Forrétturinn sem ég valdi að deila með ykkur er grafin íslensk gæsabringa ala Villt og Alið á Hellu og með henni má alls ekki vanta rauðlaukssultu. Snilldar réttur sem passar við öll tilefni og á sérstaklega vel við í grillveislum, þá geta gestirnir byrjað á forréttinum á meðan grillað er. Aðalrétturinn er grilluð dönsk ribbensteg með smá „twisti“ en ég ætla að grilla steikina á snúningsteini og bera hana fram í hamborgarabrauði með hefðbundnu meðlæti. Eftirrétturinn kemur beint frá Ameríku og gott er að bera bökuna fram volga með ís eða rjóma.

Verði ykkur að góðu.

Forréttur:
1 gæsabringa frá Villt og Alið, skorin í þunnar sneiðar
Rauðlaukssulta:
4 meðalstórir rauðlaukar
3 hvítlauksgeirar
1 stk chiliduft
1 tsk engiferduft
2 msk edik
2 msk púðursykur
2 msk hlynsýróp
100 ml porter bjór

Allt sett í pott og soðið niður uns verður að sultu. (Ágætt er að gera þetta deginum áður)

Hvítlaukssósa

Snittubrauð
Mér finnst best að borða gæsabringurnar á snittubrauði með vel af rauðlaukssultu og toppa með hvítlaukssósu.

Aðalréttur:
1 purusteik, stærð fer eftir fjölda gesta, reiknað er með 2 sneiðum á mann.
Majónes
Rauðkál
Gúrkusalat

Kveikið á grillinu og leyfið því að hitna vel.
Skerið í puruna á 5 mm fresti og saltið vel með grófu salti í hvern skurð.
Setjið steikina á snúningstein og beint á grillið. Best er að grilla kjötið við óbeinan hita.
Reiknið með 1 klst á hvert kíló eða þangað til að kjarnhitinn er kominn í 70°.
Þegar kjötið er tilbúið og puran orðin brakandi stökk, skerið það niður í sneiðar. Hamborgarabrauðin eru smurð með majonesi og á þau er sett rauðkálið, súrar gúrkur og 2 sneiðar af steikinni.

Eftirréttur:
Pecanbaka
Deig:
100 g smjör
180 g hveiti
1 eggjarauða
½ tsk. salt
3 tsk. vatn

Aðferð: Blandið öllu saman og hnoðið deigið . Fletið út og setjið í formið (23 sm)

Fylling:
1 bolli púðursykur
¼ bolli sykur
½ bolli brætt smjör
2 egg
1 msk hveiti
1msk mjólk
1 tsk vanilludropar
1 bolli saxaðar pecanhnetur
1 plata suðusúkkulaði saxað

Aðferð:

  1. Hitið í 200°
  2. Hrærið eggin þar til þau eru farin að freyða og bætið þá inn bræddu smjörinu. Bætið útí púðursykri, sykri og hveiti og blandið vel. Látið síðan útí mjólk, vanilludropa og hnetur.
  3. Hellið fyllingunni í formið með bökudeiginu. Bakið í 10 mín við 200° en lækkið síðan hitann í 175° og bakið í 30-40 mín eða þar til bakan er tilbúin.
  4. Takið bökuna úr ofninum og stráið súkkulaði yfir hana. Látið kólna.

Að lokum vil ég skora á vin minn og félaga Hjalta Tómasson að gerast næsti matgæðingur.