-3.6 C
Selfoss

Skógarhátíð og Jónsmessuganga á Snæfoksstöðum

Vinsælast

Árleg Jónsmessuganga skógarbænda á Suðurlandi verður að þessu sinni á Snæfoksstöðum hjá Skógræktarfélagi Árnesinga, sunnudaginn 23. júní nk.

Að þessu sinnu verður haft meira við, Skógarhátíðin hefst kl. 14 og stendur til kl. 17 og þangað er öllum boðið, sem vilja eiga notalega stund í fallegu umhverfi. Dansaður verður línudans, tálgað verður í tré, og rennibekkurinn og sögin verða í essinu sínu. Sýnt verður ýmislegt handverk og Kvenfélag Grímsneshreppsverður með kökubasar og kynnir bókina sína. Þá verða farnar stuttar skoðunarferðir út í skóg. Heitt verður á grillinu og boðið upp á pylsur og kjúklingabita og ketilkaffið verður á sínum stað. Ýmislegt fleira verður á dagskránni.

Jónsmessuganga skógarbænda verður svo kl. 19, þar sem farið verður í um klukkutíma langa göngu, en síðan safnast saman við grillið, þar sem Bassi mun senda ljúfa tóna út í kyrrðina og skógarmannasöngurinn hljóma.

Snæfoksstaðir eru við Biskupstungnabraut, auðvelt að rata, gaman verður að sjá sem flesta, kynnast skóginum aðeins betur og afurðum hans.

Nýjar fréttir