3.9 C
Selfoss

Sumarfrí…við mælum með Íslandi!

Vinsælast

Íslendingar hafa alltaf verið duglegir að ferðast um landið sitt og líklega er algengasti ferðamáti Íslendinga innanlands með þeim hætti að keyra um landið og fara í útilegur með fjölskylduna. Notalegt er að grilla á tjaldsvæðum vítt og breitt um landið og frábært að skella sér í sund á fjölmörgum stöðum.

Íslendingar eru líka duglegir að ferðast erlendis en þá er ferðamátinn oftast nær annar. Þá gista Íslendingar á hótelum, borða á veitingastöðum og kaupa sér afþreyingu. Margir kannast eflaust við að hafa farið erlendis og borðað á fleiri veitingastöðum á einni viku en þeir gerðu allt síðasta ár á Íslandi! Þá kaupir fólk oft á tíðum afþreyingu á borð við skemmtigarða, vatnsrennibrautagarða, þemagarða, sjóskíði, jet ski, jeppaferð, köfun, fjórhjólaferð, hjólaferð, skíðaferð, aðgang í söfn, matarupplifun með leiðsögn, gönguferð með leiðsögn og svo mætti lengi telja.

Á Íslandi er fjölbreytt afþreying í boði sem gefur afþreyingu erlendis ekkert eftir. Á Suðurlandi er til að mynda fjölbreytt afþreying á borð við hellaferðir, fjórhjólaferðir, rib bátaferðir, kajak, zipline, hestaferðir, köfun, hjólaferðir, jeppaferðir, íshellaferðir, snjósleðaferðir, gönguferðir með leiðsögn, fuglaskoðun, skoðunarferðir á margvísleg söfn, heimsókn í húsdýragarða og margt fleira. Matarupplifun á fjölbreyttum veitingastöðum er víða að finna á Suðurlandi þar sem boðið er upp á mat úr sunnlensku hráefni. Einnig er hægt að finna fjölbreytta gistingu um allt Suðurland eins og gistihús, hótel, íbúðagistingu, tjaldstæði, hostel, glamping (lúxus tjaldgisting) og ýmislegt fleira. Þetta fjölbreytta framboð af veitingastöðum, afþreyingu og gistingu er hluti af þeim jákvæðu áhrifum sem ferðaþjónustan hefur á samfélagið.

Gleymum við að upplifa Ísland á sama hátt og við leyfum okkur að upplifa þegar við erum erlendis? Við erum vön því að geta gert skemmtilega hluti á Íslandi sem kosta lítið sem ekkert, eins og að fara í útilegu og sund, og leyfum okkur oft á tíðum ekki að kaupa afþreyingu og upplifun á Íslandi líkt og við gerum erlendis.

Varðandi kolefnissporið þá er mun umhverfisvænna fyrir okkur sem búum á Íslandi að ferðast um Ísland heldur en að taka flugið á erlenda grundu. Í því samhengi má bæði nefna samgöngumátann og það staðbundna hráefni sem við getum notið á ferðalagi okkar um landið. Ekki svo að við hættum að ferðast erlendis en við gætum stefnt að meira jafnvægi í ferðalögunum okkar og um leið minnkað flugviskubitið svokallaða.

Við mælum með því að fólk ferðist um Suðurland og landið allt í sumar og leyfi sér að upplifa allt það sem íslensk ferðaþjónusta býður upp á. Hægt er að nálgast upplýsingar um fjölbreytta afþreyingu, viðburði, veitingastaði og gistingu á  https://www.south.is/is

Nýjar fréttir