-6.6 C
Selfoss
Home Fréttir Hvað er hægt að gera við skordýrabitum?

Hvað er hægt að gera við skordýrabitum?

0
Hvað er hægt að gera við skordýrabitum?
Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, ljósmóðir og hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar á Klaustri.
Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, ljósmóðir og hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar á Klaustri.

Á vorin er algengt að einstaklingar verði fyrir barðinu á stungum og bitum af skordýrum. Þeir sem hafa reynslu af þessu vita vel hve þetta er óþægilegt. Stungur og bit skordýra valda litlum sárum og útbrotum á húð, oftast er þetta meinlaust en veldur nánast alltaf óþægindum og kláða. Einstöku sinnum getur komið sýking í húð, alvarleg ofnæmisviðbrögð eða smitsjúkdómar. Vert er að hafa í huga að sum bit og stungur geta valdið alvarlegum einkennum og/eða sjúkdómum. Fá skordýr á Íslandi bera með sér alvarlega sjúkdóma en skógarmítill hefur tekið sér bólfestu hér á landi og getur borið með sér Lyme sjúkdóminn, sem er alvarlegur.

Einkenni : Skordýrabit valda oftast óþægindum, á húðinni myndast rauðir bólgnir hnúðar og kláði fylgir. Oftast gengur þetta yfir á nokkrum klukkustundum eða dögum en stundum varir þetta lengur. Væg ofnæmisviðbrögð lýsa sér þannig að svæði á húðinni í kringum bitið verður bólgið og aumt en hverfur oftast á einni viku. Í einstaka tilvikum geta ofnæmisviðbrögð verið alvarlegri og jafnvel lífshættuleg og þá þarf umsvifalaust að fá meðhöndlun. Það getur verið snúið að átta sig á hvort um bit eða stungu er að ræða en í flestum tilfellum er þetta meðhöndlað á sama hátt. Í nánast öllum tilvikum geta einstaklingar sjálfir meðhöndlað einkennin og ekki er þá þörf á að leita læknisaðstoðar.

Hvað er hægt að gera?

Heima:

  • Fjarlægja mítilinn eða stungubroddinn, ef hann er sjáanlegur, eins fljótt og hægt er til að hindra frekari losun eiturs og draga úr sýkingu.
  • Hreinsa bit með vatni og sápu.
  • Kæla bólgna svæðið í 10–15 mín.
  • Ef bit eru á höndum eða fótum er ráðlagt að hafa hærra undir útlimnum í liggjandi/sitjandi stöðu.
  • Kaldir bakstrar draga úr kláða, óþægindum og bólgu. Ekki klóra!
  • Mild sterakrem geta hjálpað til við að draga úr kláða og óþægindum, þau fást í lausasölu í apótekum.
  • Þeir sem fá væg ofnæmisviðbrögð geta tekið ofnæmislyf sem fást í lausasölu í apótekum.

Leitaðu til heilsugæslu sem fyrst ef:

  • Einkenni lagast ekki eða versna á nokkrum dögum.
  • Bit eða stunga er í munni, hálsi eða nálægt augum.
  • Einkenni sýkingar í húð ertu til staðar, t.d roði, hiti, aukinn sársauki og gröftur.
  • Þú færð flenuslík einkenni, þ.e. hita og bólgna eitla.

Leitaðu til bráðamóttöku eða hafðu samband við 112 og kallaðu eftir sjúkrabíl strax ef:

  • Öndunarerfiðleikar
  • Bólga í andliti, hálsi eða munni
  • Ógleði eða uppköst
  • Hraður hjartsláttur
  • Svimi og yfirliðstilfinning
  • Erfiðleikar við að kyngja
  • Meðvitundarskerðing eða meðvitundarleysi

Á heilsuvera.is má finna myndir og yfirlit um helstu bit og stungur sem og ráð sem gætu gagnast í baráttunni gegn skordýrabiti og -stungum.

Heimildir: Landlaeknir.is og heilsuvera.is

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslustöðvar Kirkjubæjarklausturs.