-3.6 C
Selfoss

Viðburðaríkur og skemmtilegur vetur í Tónlistarskóla Árnesinga

Vinsælast

Að baki er viðburðaríkur og skemmtilegur vetur í Tónlistarskóla Árnesinga. Nemendur hafa verið sér og skólanum til mikils sóma hvar sem þeir hafa komið fram og borið kennurum sínum gott vitni. Hér verður stiklað á stóru um viðburði vetrarins.

Í nóvember voru haldnir árlegir deildatónleikar, þar sem fram komu allar hljómsveitir, samspilshópar og kórar skólans auk einsöngvara og einleikara. Var mjög gaman að fylgjast með þróttmiklu hópastarfi skólans á tónleikunum sjö.

Fyrir jólin heimsóttu nemendur og kennarar fjölmarga staði að vanda. Léku nemendur jólalög og aðra fallega tónlist hvar sem þeir komu s.s. á litlu-jólum grunnskólanna, í leikskólum, hjúkrunarheimilum, á samkomum, í verslunum og víðar.

Á Degi tónlistarskólanna voru haldnir sex svæðistónleikar í Árnessýslu. Flögruðu kennarar milli tónleikastaða og fylgdu nemendum sínum hvar sem þeir komu fram.

Tónlistarskóli Árnesinga sendi fjögur atriði á svæðistónleika Nótunnar í Salnum Kópavogi og voru tvö þeirra valin til áframhaldandi þátttöku á lokatónleika Nótunnar í Hofi á Akureyri í apríl. Bæði atriðin fengu verðlaun fyrir flutning sinn á lokatónleikunum. Á myndunum má sjá flytjendur á sviði í Hofi.

Maímánuður var líflegur. Fyrst má nefna fyrstu „píanó-hringekjutónleika“ skólans í Hveragerðiskirkju. Á tónleikunum komu fram um 70 píanónemendur og fluttu 45 mínútna dagskrá á tvö píanó. Mjög skemmtileg nýjung í skólastarfinu.

Þrír söngnemendur luku framhaldsprófi frá tónlistarskólanum í maí, með glæsilegum framhaldsprófstónleikum. Þetta voru þær Berglind María Ólafsdóttir, Unnur Þórisdóttir og Sædís Lind Másdóttir.

Síðast en ekki síst má nefna hina stórskemmtilegu „Allskynsóperu“ sem skólinn setti upp á Stokkseyri 10. og 11. maí. Fram komu um 150 nemendur, í hljómsveitum og samspilshópum, einsöngvarar og söngfuglar. Haldnar voru þrjár sýningar og skemmtu bæði flytjendur og áheyrendur sér konunglega, um leið og þeir nutu vandaðs tónlistarflutnings nemenda. Nemendum og kennurum eru færðar kærar þakkir fyrir glæsilega óperu.

Nú vorar og við kveðjum skemmtilegt vetrarstarf með skólaslitum, en um leið hefst undirbúningur næsta skólaárs. Á heimasíðu skólans www.tonar.is má finna upplýsingar um námsgreinar og sækja um skólavist. Hlökkum við til að hitta fyrri og nýja nemendur í haust.

Helga Sighvatsdóttir, skólastjóri

Nýjar fréttir