-5.2 C
Selfoss
Home Fréttir Vondar hugmyndir um náttúruauðlindirnar ræna mig stundum svefni

Vondar hugmyndir um náttúruauðlindirnar ræna mig stundum svefni

0
Vondar hugmyndir um náttúruauðlindirnar ræna mig stundum svefni
Anna Sigríður Valdimarsdóttir.

Lestrarhestur Dagskrárinnar, Anna Sigríður Valdimarsdóttir, er fædd í Reykjavík árið 1981 en alin upp og búsett að Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi. Hún er feministi, náttúruverndarsinni, náttúrufræðingur og sveitarstjórnarkona í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Hún segist ekki vera lestrarhestur.

Hvaða bók ertu að lesa núna? 
Ég afrekaði það að fá lánaða bók hjá góðri vinkonu um helgina til að geta svarað þessum spurningum skammarlaust en bókin heitir Kvika og er eftir Þóru Hjörleifsdóttur. Áhugi minn á henni er þó ekki bundinn við að vanta bók til að lesa heldur stóð alltaf til að lesa hana, en mér fannst viðfangsefni hennar virkilega áhugavert en hún fjallar um eitrað samband ungs pars. Reyndar er ég líka að lesa Why not me? eftir Mindy Kaling, leikkonu, rithöfund, skemmtikraft og fleira og er ástæðan er sú að mér finnst Mindy svo ótrúlega fyndin og flott kona.

Hvers konar bækur höfða helst til þín? 
Helst einhvers konar heimildabækur, bækur eins og Sunnlenskar byggðir, Útkallsbækurnar og ættfræðibækur. Bækur um plöntur og dýr, náttúru- og jarðfræði eru líka fallegar og upplýsandi. Tími spennu- og glæpasagna er liðinn í mínu lífi, þar sem ég vil ekki lengur umkringja hug minn og hjarta með ljótleika heimsins.

Varstu alin upp við lestur bóka? Ég var eflaust alin upp við lestur en ég hef aldrei verið mikið fyrir að lesa, því miður. Ég er latur lesari sem birtist ef til vill í fáfræði minni um ýmis mál. Uppáhaldsbókin úr æsku er samt greypt í huga mér og heitir Bróðir minn ljónshjarta eftir Astrid Lindgren. Ég er úr stórri fjölskyldu og við erum mjög náin og ég tengdist þessari bók sterkum böndum sem barn og hugsa að ég hafi upplifað söguna sem hún væri mín saga.

En hvað með lestrarvenjur? Þær eru ekki til. Nema helst að svona einum til tveimur dögum fyrir sveitarstjórnarfundi, þá les ég gögnin fyrir fundinn af tölvuskjá.

Áttu þér einhvern uppáhaldshöfund? Ég get nú varla sagt það.

En hefur bók rænt þig svefni?
 Já, á glæpasagnalesturstímabilinu. Þá ýmist rændu bækur mig svefni vegna hræðslu eða áhuga. Í dag eru það umhverfisskýrslur og skipulagsmál um – að mínu mati – vondar hugmyndir sem ganga á náttúruauðlindir heimsins sem ræna mig svefni.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur? 
Ég hugsa að ég myndi skrifa um siðferðislega ábyrgð mannkyns gagnvart náttúrunni, öðrum mannverum og heiminum öllum. Hvernig vestrænn lifnaðarháttur arðrænir heiminn – og er ég því miður ekki undanskilin þeim lifnaðarháttum. En ekki svo að skilja að ég hafi einhvern viðeigandi bakgrunn eða færni til þess að skrifa vitrænt um þessi mál en þetta eru málefni sem taka oft yfir hugsanir mínar. Eins myndi ég mögulega skrifa eitthvað út frá myrkrinu sem býr innra með mér. Mamma segir að ég sé góður penni þegar ég er reið. Árni Blandon, gamli sálfræðikennarinn minn úr framhaldsskóla sagði að skrif mín minntu hann á skrif Ástu Sigurðardóttur.