-0.5 C
Selfoss

Fannst ég kominn 27 ár aftur í tímann

Vinsælast

Gísli Felix Bjarnason hefur verið tengdur handboltanum á Selfossi í hátt í þrjá áratugi. Hann kom á Selfoss 1990 og lék í marki „Gullardarliðsins“ svokallaða í nokkur ár. Síðan settist hann að á Selfossi og hefur m.a. þjálfað yngri flokka félagsins undanfarin ár.

Þurfti ferska áskorun

„Upphafið er það að árið 1990 fékk ég fyrirspurn um að koma á Selfoss og spila með liði sem þá var nýkomið upp í efstu deild. Þetta var ungt lið og ég þekkti engan í liðinu. Ég þekkti þjálfarann, Björgvin Björgvinsson, gamla stórmeistarann og landliðsmanninn úr Fram sem lék á línunni. Ég var á ákveðnum tímamótum, var búinn að vera lengi í KR og þurfti ferska áskorun. Mér fannst þetta spennandi. Ég átti kannski ekki von á því sem gerðist í framhaldinu. Við fórum þrír yfir heiðina þennan fyrsta vetur, ég, Sigurjón Bjarnason, gamall Selfyssingur sem bjó í Reykjavík og Björgvin. Við keyrðum á milli. Fyrir í liðinu þá voru ungir strákar eins og Einar Guðmunds, Einar Gunnar, Gústi Bjarna, Siggi Þórðar og fleiri,“ segir Gísli Felix.

Siggi Sveins var risa nafn í boltanum

„Við áttu í strögli nánast allan veturinn og lentum í svokallaðri „fallkeppni“. Þar vorum við nokkuð heppnir að halda okkur uppi. Síðan um sumarið var ákveðið að snúa vörn í sókn. Björgvin hætti og það urðu miklar bollaleggingar um hver yrði þjálfari. Að endingu var Einar Þorvarðarson ráðinn og púsluspilið kannski fullkomnað með því að við bættust Jón Þór Jónsson eða Bonni, hornamaðurinn knái, og svo að sjálfsögðu Siggi Sveins. Siggi var risa nafn í boltanum á þessum tíma. Það var eiginlega eins og að fá Aron Pálma heim núna, ef við getum orðað það þannig. Liðið fór þannig séð að mótast.“

Vildum frekar spila sókn og spiluðum hratt

„Við vorum eiginlega alltaf lið fólksins því við spiluðum rosalega skemmtilegan og mikinn handbolta. Ólíkt liðinu í dag vorum við ekki góðir í því að verjast. Við vildum frekar spila sókn og spiluðum mjög hratt. Svona byrjaði þetta og árangurinn stigmagnaðist yfir tímabilið.  Við fórum inn í úrslitakeppnina en vorum samt langt frá því að vera kandídatar í því að fara áfram. Við vorum hálfgert spútniklið sem fórum tiltölulega létt í gegnum 8-liða úrslitin gegn Stjörnunni. Síðan lentum við á móti sigurstranglegasta liðinu í mótinu sem var Víkingur. Það lið var þá skipað landsliðsmönnum nánast í öllum stöðum. Við unnum þá samt í undanúrslitunum 2:0 tiltölulega sannfærandi. Síðan kom þessi fræga rimma á móti FH um vorið 1992 sem endaði 3:1. Margir Selfyssingar vilja meina að staðan sé enn 2:2. Þar kemur til klukkumálið fræga sem margir eru ótrúlega svekktir með enn í dag. Mörgum Selfyssingum finnst því að það einvígi sé ekki búið. Þarna spilaði liðið rosalega vel en náði ekki að klára titilinn eins og liðið gerði núna.“

Vonbrigðaár og dramatík í Evrópukeppninni

Gísli Felix segir að árið eftir, eða 1993, hafi verið hálfgert vonbrigðaár hjá Selfossliðinu að mörgu leyti. Liðið endaði í þriðja sæti í deildarkeppninni og tapaði í undanúrslitunum á móti Val. Selfoss tapaði einnig í bikarúrslitum á móti Val fyrir troðfullu húsi. Liðið tók þátt í Evrópukeppni sem mikið hefur verið fjallað um. Þar var liðið að spila við lið sem eru stórveldi í dag. „Einn frægasti Evrópuleikur sem spilaður hefur verið kannski í sögu íslenska handboltans var á móti Pick Szeged þar sem liðið datt út á útimarkareglu eftir 12 marka tap úti og 12 marka sigur heima. Í undanúrslitunum beið Barcelóna en það hefði verið afskaplega gaman að hafa þá í sögunni.“

Gísli Felix var beðinn að bera aðeins saman gullaldarliðið svokallaða og Selfossliðið sem varð Íslandsmeistari í ár.

Margt sammerkt með báðum liðum

„Það er margt sammerkt með þessum tveimur liðum. Í þeim báðum var góður kjarni af heimastrákum. Í liðinu sem var fyrir 27 árum síðan var kjarni sem síðan endaði í landsliðinu eins og Einar Gunnar og Gústi Bjarna. Einar Guðmunds náði aldrei alla leið inn í landsliðið. Ef hann hefði ekki verið að kljást við meiðsli hefði hann farið langt. Þeir voru s.s. í liðinu þá í bland við okkur eldri leikmenn sem komu annars staðar frá,“ segir Gísli Felix.

Liðið í dag verst miklu betur

Í dag er Selfossliðið nánast alveg skipað heimamönnum sem eru í burðarhlutverkum. Gísli Felix segir að munurinn á liðinu í dag og fyrir 27 árum sé að liðið í dag verst kannski miklu betur. „Öll umgjörð og þessi spenna í kringum liðið er rosalega lík og maður fékk eiginlega hálfgert „flashback“ í þessari úrslitakeppni núna. Ég verð að viðurkenna að mér fannst ég vera komin 27 ár aftur í tímann. Það var þessi eftirvænting í bænum og þú gast hvergi farið án þess að tala um handbolta. Menn sem unnu út á landi í gamla daga þurftu alltaf að tala um handbolta. Þetta voru kannski menn frá Selfossi sem höfðu ekki hundsvit á handbolta.“

Liðið í dag vera skrefinu framar

„Mér finnst þannig séð mikil líkindi með þessu en verð að viðurkenna að mér finnst liðið í dag vera skrefinu framar. Þeir náðu að klára það sem þetta lið gerði ekki. Þessir ungu strákar í dag eru bara eitthvað annað. Þeir eru með hugarfar og „mentalitet“ sem maður bara skilur ekki. Þetta eru með ólíkindum flottir drengir.“

Tvíeggjað sverð

Gísli Felix var spurður hvaða áhrif þessi sigur strákanna hefði á handboltann á Selfossi. „Þetta er náttúrulega tvíeggjað sverð þannig séð. Nú er búið að vinna titilinn sem er búin að vera þrautaganga lengi. Við erum búnir að ganga í gegnum hæðir og lægðir í þessum blessaða handbolta. Maður er búinn að sitja upp í stúku á 1. deildar leikjum ár eftir ár með tuttugu öðrum hræðum og verið alveg við það að bresta, stundum yfir leiðindum. En uppgangurinn undanfarin ár er gríðarlegur. Auðvitað skilar þetta sér niður í yngri flokkana en árangurinn gerið það að verkum að það getur kvarnast úr liðinu. Þannig að þetta eru hættuleg tímamót. Við erum þjálfaralausir og erum að missa margra manna maka (Elvar Örn) til Danmerkur sem er náttúrulega frábært skref samt sem áður. Þannig að við megum ekki sofna á verðinum núna. Nú er gaman en það er hættulegur tímapunktur í gangi. Það er fullt af ungum leikmönnum í liðinu en við höfum verið að byggja á þessari ’97-kynslóð okkar og í augnablikinu er ekki hægt að segja að það sé akkúrat þannig kynlóð í gangi. Svona afburða einstaklingar er eitthvað sem kemur ekki tveggja þriggja ára fresti. Það er frekar á tuttugu ára fresti. Engu að síður eru margir góðir leikmenn í liðinu sem eiga eftir að standa sig vel,“ segir Gísli Felix og brosir enn eftir sigurleikinn gegn Haukum.

Nýjar fréttir