-7 C
Selfoss

Dagdvölinni Árblik færðar höfðinglegar gjafir

Vinsælast

Dagdvölinni Árblik voru færðar höfðinglegar og góðar gjafir í vetur við opnun á nýju og glæsilegu húsnæði við Austurveg 51, en þangað er innangengt úr Grænumörk 5. Lionsklúbburinn Embla á Selfossi færði dagdvölinni fjölþjálfa, æfingatæki  sem þjálfar samhæfingu handa og fóta. Lionsklúbburinn Selfoss færði Árbliki standlyftara að gjöf sem mun koma að góðum notum í dagdvölinni, léttir starfsfólki verkin og notendum í hjólastól að komast á milli stóla.

Til að þakka þessar gjafir og veita þeim formlega móttöku var boðið til kaffisamsætis að Austurvegi 51, Selfossi þann 24. maí sl. Við sama tilefni var Hirti Leví þakkað fyrir veglega ljósmynd sem  hann tók og færði Árbliki í minningu föður síns, Péturs Karlssonar heitins.

Forstöðumaður dagdvala í Árborg, Ragnheiður Kristín Björnsdóttir, veitti gjöfunum mótttöku úr hendi formanns Lionsklúbbs Selfoss, Sigurðar Magnússonar og Maríu Hauksdóttur fráfarandi formanns Lionsklúbbsins Emblu. Starf félagasamtaka líkt og þessara tveggja er hverju samfélagi ómetanlegt vegna stuðnings sem þau veita við ýmis tækifæri. Verðmæti tækjanna sem gefin voru er samanlagt  um kr. 2.000.000,-

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri tók til máls og þakkaði félögunum kærlega fyrir stuðninginn og sagði einnig frá því að nú væri sveitarfélagið orðið formlegur aðili að Heilsueflandi samfélagi.

Ragnheiður vill koma því á framfæri að góðar gjafir hafi verið að berast frá einstaklingum undanfarið til  dagdvalanna Árbliks og Vinaminnis og þakkar hún sýndan hlýhug í garð starfseminnar.

Nýjar fréttir