1.7 C
Selfoss

Almenn ánægja með Fjör í Flóa

Vinsælast

Flóahreppur þakkar þeim fjölmörgu sem komu að undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar „Fjör í Flóa“ sem var haldin 24. og 25. maí s.l. Hátíðin heppnaðist í alla staði mjög vel og veðurguðirnir voru okkur hliðhollir alla helgina.

Hátíðin hófst formlega í Þjórsárveri með afmæliskaffi þar sem haldið var upp á afmæli félagsheimilanna  Félagslundar sem verður 70 ára og Þjórsárvers sem verður 60 ára á þessu ári.  Árni Eiríksson og Ólafur Sigurjónsson rifjuðu upp skemmtilegar minningar sem leiddu hugann að gildi og mikilvægi félagsheimila fyrir samfélög.  Menningarstyrkur Flóahrepps var afhentur  trélistakonunni Siggu á Grund sem vinnur að heildstæðu verki um gangtengudir íslenska hestisins. Verkið mun verða til sýnis í Flóahreppi þegar því er að fullu lokið. Íþróttamenn ársins þau Dagur Fannar Einarsson og Sara Ægisdóttir voru heiðruð fyrir frábæra ástundun og árangur.  Nemendur í 5. og 6. bekk Flóaskóla sungu og spiluðu á langspil undir stjórn Eyjólfs Eyjólfssonar. Langspilin höfðu þau smíðað sjálf undir haldleiðslu Eyjólfs og var þetta hluti af lokaverkefni hans í þjóðfræði. Ósk Unnarsdóttir formaður kvenfélags Villingaholtshrepps færði Þjórsárveri rafdrifið sýningartjald í tilefni afmælisins.

Dagskránni í Þjórsárveri  lauk með fallegu söngatriði Kolbrúnar Kötlu Jónsdóttur.

Mjög  góð þátttaka var í gönguferðinni í ár en um 150 manns á öllum aldri mættu til leiks . Gengið var frá Hurðarbaki að 360° hótelinu í Hnaus og til baka aftur en boðið var upp  á far í heyvagni fyrir þreytta fætur á heimleiðinni. Veitingar voru í boði húsráðenda á báðum stöðum.

Á fimmtudagskvöldið var eldri borgurum boðið á tónleika í Tré og list en opnir tónleikar voru á  og föstudagskvöldi þar sem einnig var opnuð málverkasýning.

Kvenfélögin í Flóahreppi og sáu um morgunmat í Félagslundi en eftirtalin fyrirtæki styrkja „Fjör í Flóa“ með veitingum á morgunverðarborðið: Nettó, HP bakstur, Mjólkursamsalan, Sláturfélag Suðurlands, Nesbú egg í Miklholtshelli og  Melar græmetissala.

Í Þingborg var samfelld dagskrá á laugardegi þar sem allir gestir fundu eitthvað við sitt hæfi. Þar var meðal annars vélasýning, hreystibraut, vöfflukaffi, blómasala, kökubasar, hlutavelta, sölubásar, kökuskreytingakeppni, töfamaður, og Gunni og Felix  svo eitthvað sé nefnt. Hægt var að fá far yfir í Gömlu Þingborg og til baka í hestvagni en þar var opið hús í báðum fyrirtækjum. Hátíðinni lauk með „Tónahátíð“ í Félagslundi á laugardagskvöldi. Kynnir kvöldsins var Björk Jakobsdóttir.

Menningarnefnd Flóahrepps, Kvenfélögin í Flóahreppi, Ungmennafélagið Þjótandi, starfsmenn Flóahrepps ásamt fyrirtækjum á Suðurlandi sem bera hitann og þungann af  undirbúningi  og framkvæmd hátíðarinnar „Fjör í Flóa“ þökkum við fyrir óeigingjarnt og ómetanlegt framlag til hátíðarinnar og gestum öllum fyrir komuna.

Munið að taka frá dagana 22. – 23. maí 2020, þá verður aftur „Fjör í Flóa.“

 

 

Nýjar fréttir