-5.5 C
Selfoss

Mikilvægt að taka sjálfur þátt í Hreyfiviku UMFÍ

Vinsælast

„Ég hef undanfarið verið að hita upp fyrir sundkeppni sveitarfélaga og koma okkur í gírinn. Sundkeppnin hreyfir við mörgum, sérstaklega ef ég tek þátt í henni sjálfur og dreg aðra með,“ segir Þórhallur J. Svavarsson, forstöðumaður íþróttamannvirkja í Rangárþingi ytra. Hann er aðalsprautan á Hellu í sundkeppni sveitarfélaganna sem efnt er til í tengslum við Hreyfiviku UMFÍ.

Hreyfivikan hefst í dag mánudaginn 27. maí og stendur til sunnudagsins 2. júní. Hreyfivikan hefur verið haldin árlega frá árinu 2012. Þetta er samevrópsk lýðheilsuherferð sem fram fer í 38 Evrópulöndum á sama tíma. Markmið hennar er að gera fólki kleift að finna sína uppáhalds hreyfingu og fjölga þeim sem hreyfa sig reglulega eða í að minnsta kosti 30 mínútur á hverju degi.

Einfalt mál er að taka þátt í Hreyfivikunni og standa fyrir alls konar viðburðum í Hreyfivikunni. Það gera boðberar eins og Þórhallur í sundlauginni á Hellu.

„Það skiptir máli að taka sjálfur þátt í viðburðinum og laða aðra að honum,“ segir Þórhallur sem stingur sér til sunds alla morgna, um miðjan dag og aftur á kvöldin á meðan sundkeppninni stendur. „Við keppum í öllu við íbúa í Rangárþingi eystra, sérstaklega í sundkeppninni. Þar höfum við þrisvar unnið. Ég mun verða duglegur að synda sjálfur. Fastagestir á öllum aldri taka þátt af krafti og morgunsundmenn synda tvöfalt meira en aðra daga. Við höfum líka haft veislu í sundlauginni fyrir gesti fram á kvöld til að hvetja sundfólkið. Þetta er stórskemmtilegt. En maður verður að vera hvetjandi,“ segir Þórhallur.

Vertu með!
Sunnlendingar geta kynnt sér hvaða skemmtilegu viðburðir eru í boði á Hreyfiviku UMFÍ á vefsíðunni www.hreyfivika.is. Þar geta þeir líka skráð sig sem vilja bjóða öðrum að vera með sér í líflegu sprelli, í göngutúr eða skella upp nettu harmonikkuballi. Selfyssingurinn Alexandra Björg Ægisdóttir er verkefnastjóri UMFÍ og svarar hún öllum fyrirspurnum um hreyfivikuna á netfanginu hreyfivika@umfi.is.

Nýjar fréttir