-6.6 C
Selfoss

Aldrei verið leitað í ánni með þessum hætti áður

Vinsælast

Þegar vá ber að höndum standa Íslendingar saman og þétta raðirnar. Svo var einnig þegar ökutæki með mann innanborðs fór í Ölfusá í lok febrúar á þessu ári. Leit fór strax af stað og allar tiltækar bjargir kallaðar út til leitar. Fyrstu dagana var mikill þungi í leitinni. Þegar leitin bar ekki árangur ákvað Lögreglan á Suðurlandi að breyta um aðferð, en halda leitinni áfram. Fram hafði komið að mögulega væri hægt að beita sérstakri hljóðbylgjutækni til leitar í ánni. Í framhaldinu fékk Lögreglan á Suðurlandi sérfróða aðila til samstarfs við sig m.a. frá sérsveit Ríkislögreglustjóra. Þetta er í fyrsta skipti sem leitað hefur verið í ánni með þessum hætti. Með samstilltu átaki tókst verkefnið vel upp. Blaðamaður hafði samband við Odd Árnason, yfirlögregluþjón hjá Lögreglunni á Suðurlandi og Arnar Þór Egilsson, kafara hjá sérsveit Ríkislögreglustjóra til að fá upplýsingar um þá tækni sem beitt var við fjölgeislamælingar í Ölfusá.

Vandasamt verk fyrir höndum í
straumharðri á

Það er ljóst að vandasamt verk var fyrir höndum við áframhaldandi leit, eins og Arnar bendir á. „Þetta verkefni er að mörgu leyti ólíkt öðrum verkefnum sem ég hef komið að á 15 ára ferli og með þeim flóknari. Það helgast af því hvernig búnaðurinn virkar fyrst og fremst. Við þurftum í raun að prófa hvort tæknin virkaði yfir höfuð í svona aðstæðum. Á vatni eða sjó er þetta tiltölulega einfalt mál. Í Ölfusá sem er bæði vatnsmikil og straumhörð er þetta mun flóknara,“ segir Arnar.

Búnaðurinn er þannig gerður að hann þarf að vera á jafnri hreyfingu 3-6 sjómílna hraða og fylgja beinni línu þannig að upplýsingarnar sem verið er að safna séu í lagi. „Það má líkja þessu við að ef þú hreyfir myndavél mikið þegar þú smellir af þá bjagast myndin og allt sem á henni er verður ógreinilegt. Slíkt hið sama á við um þessa tækni. Það má segja að við séum að mynda botninn með hljóðbylgjum. Það þarf að koma því á framfæri að Björgunarfélag Árborgar sá um allar siglingar á ánni, en þeir þekkja hana afar vel og óhætt er að segja að þeir hafi gert það einstaklega vel. Það sést í raun best á því hve myndirnar eru góðar þrátt fyrir ótrúlega erfiðar aðstæður, strauma sem rífa í bátinn og vilja síst af öllu fara beina leið,“ segir Arnar.

„Allir aðilar sem komu að þessu unnu sem einn og fagmennskan var ríkjandi í hvívetna. Það er gott til þess að vita að við höfum þekkingu og tæknilega getu og öflugan mannskap hér á landi til þess að halda áfram með rannsókn sem þessa,“ bætir Oddur við.

Tæknin byggir á hljóðbylgjum með sérstökum búnaði

Aðspurður um tæknina tekur Arnar fram að hún sé flókin. „Fyrst og síðast byggir þetta á geislamælingum með hljóðbylgjum sem sendar eru niður á botn og varpast til baka í búnaðinn, einskonar bergmálsmælir. Svo eru sigldar ferðir í beinni línu og mörgum myndbútum safnað saman sem síðan er skeytt saman í eina heildarmynd, en þó þetta hljómi auðvelt er það alls ekki svo. Okkur tókst þó með góðri samvinnu að þekja allt leitarsvæðið sem við ætluðum. Svo ég fari aðeins yfir búnaðinn sem reyndur var þá prófuðum við bergmálsmælingu, tvígeislamælingu og svo það sem kallast fjölgeislamæling. Hann virkar þannig að hann sendir fleiri geisla niður og myndin verður skýrari en með hinum. Það kom svo í ljós að fjölgeislamælirinn varð lykilbúnaðurinn í rannsókninni og gaf besta raun,“ segir Arnar.

Árangurinn gefur tilefni til að kanna hlutina betur

Markmiðin í upphafi voru að kanna hvort hægt væri að beita tækninni í því umhverfi sem áin hefur upp á að bjóða. Þá var næsta mál að kanna hvort það tækist að finna eitthvað í umhverfinu sem við gætum lesið út að þyrfti nánari skoðunar við. Þriðja atriðið var að kortleggja svæðið og fá skýra mynd af því hvernig botninn liggur. „Í grundvallaratriðum tókst rannsóknin að einhverju leyti. Það tókst að beita búnaðinum og við höfum nokkuð skýra mynd af því hvernig landslagið liggur undir vatnsyfirborðinu. Þá eru staðir sem við viljum kanna  betur í framhaldinu en þeir falla hinsvegar utan þess svæðis eða ofar í ánni en við teljum raunhæft að ætla að ökutækið eða hlutar þess séu,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn.

Undir yfirborðinu

Það hafa ýmsar getgátur verið uppi um það hvernig landslagið er undir gruggugu yfirborði árinnar. Með búnaðinum tókst að varpa mynd á það umhverfi. Dýpsti bletturinn, fyrir framan vatnsmælinn, er 16 metra djúpur. Til að setja hlutina í samhengi getur sportkafari komist dýpst á 18 metra. Þá er merkilegt að það virðist vera hraunstrýta niðri í ánni sem nær frá 10 metra dýpi upp á 5 metra. Þetta er eitthvað sem aldrei hefur verið sýnt áður eða fólk hefur séð.

Þversniðsmyndin sýnir ekki raunverulegt þversnið heldur háupplausna hljóðbylgjumælingu. Línan á myndinni fyrir neðan sýnir hvaða leið var silgd. Þar kom þessi hraunstrýta fram sem sést lengst til hægri á myndinni. Mynd: Lögreglan.
Vinstri: Myndin sýnir hvaða leið var sigld. Miðja: Myndin sýnir hve djúpt er á svæðinu. Blái liturinn er þar sem mesta dýpið er en þeir rauðu sýna hvar er grynnra. Hægri: Á myndinni sést leitarsvæðið vel. Gögnum er safnað saman og þau sett í eina heildarmynd af öllu svæðinu. Myndir: Lögreglan.

Fjölmargir sem komu að aðgerðunum

Það er rétt að taka fram að fjölmargir aðilar komu að rannsókninni. Annaðhvort með beinni aðstoð eða láni á búnaði. Þar kristallast sú menning að á Íslandi eru flestir tilbúnir að leggjast á eitt og hjálpa náunganum. Meðal þeirra aðila sem komu með einhverjum hætti að verk-efninu eru; Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum, Árni Kópsson, kafari, Landhelgisgæslan, Brunavarnir Árnessýslu svo einhverjir séu nefndir. Þá sá Björgunarfélag Árborgar um allar siglingar á ánni og lán á ýmsum búnaði. Í samtölum mínum við bæði Odd og Arnar hafa þeir lagt ríka áherslu á þennan sameiningarkraft og einhug í því að vinna að rannsókninni eins og best verður á kosið og færa fram sínar ítrustu þakkir til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg með einum eða öðrum hætti.

 

Nýjar fréttir