-0.5 C
Selfoss

Eldað reglulega í hversdagsleikanum

Vinsælast

Hallur Halldórsson á Selfossi er sunnlenski matgæðingurinn. Skemmtileg hefð að skora á sveitunga sína og fá innsýn inn í daglega eldamennsku þeirra. Flestar fjölskyldur eiga sína uppáhaldsrétti sem hægt er að grípa til. Það getur komið sér vel þegar ráfað er um í Krónunni og reynt að láta sér detta eitthvað nýtt og spennandi í hug að kunna fáa en góða rétti.   Þægilegt er að kafa í reynslubankann og grípa ákveðna hluti og rölta heim á leið með bros á vör, vitandi hvaða bragð mun umlykja bragðlaukana þetta kvöldið. Þrátt fyrir mikla íþróttaiðkun fjölskyldunnar þá höfum við hjónin ávallt lagt mikið upp úr því að fjölskyldan borði saman kvöldmat og ræði saman. Ég hef það ábyrgðarmikla hlutverk að elda veislumatinn í okkar sambúð en langar að deila með ykkur tveimur réttum sem við eldum reglulega í hversdagsleikanum.

Kjúklingaspaghettí með karríeplasósu (sunnudagsréttur)
Ómótstæðilegur réttur þar sem lykilatriðið er að nota sem grænustu eplin og ekki gleyma rúsínum.
1 heill grillaður kjúklingur. Rifinn niður í þægilega bita og látinn til hliðar.
2 mjög græn epli. Skorin í netta bita.
1 blaðlaukur. Sneiddur niður.
4 tsk. karrí. Gott að nota fleiri en eina tegund.
1 msk. hveiti
1 dl rúsínur
2 ½ dl matreiðslurjómi eða mjólk
Kjúklingakraftur
Salt og pipar
Ca 200 gr. spaghettí

Takið eplin og blaðlaukinn og léttsteikið á pönnu í olíu. Stráið svo karrí og hveiti yfir og hrærið. Hellið matreiðslurjóma saman við og hrærið vel. Bætið næst rúsínum og kjúkling út í og kryddið með kjúklingakrafti, salti og pipar. Blandið saman spaghettí, sósu og kjúklingi og þessi samsetning kemur ykkur á óvart í einfaldleika sínum.

Næsta rétt er einnig hægt að nota fyrir matarboð og undirbúa daginn áður til að hafa góðan tíma fyrir gestina.

Nautagúllas með appelsínum.
Uppskrift miðast við 6-7 manneskjur
1,25 kg nautagúllas
½ stór blaðlaukur
2 appelsínur (fínrifinn börkur og safi). Appelsínunum má ekki sleppa.
2 msk. sojasósa
2-3 dl matarrjómi
Nautakjötskraftur
Salt og pipar
Sósujafnari
Appelsínusneiðar til skrauts

Steikið nautakjötið í olíu og setjið í stóran pott. Sneiðið blaðlauk niður, léttsteikið og setjið í pottinn. Rífið svo appelsínubörkinn á rifjárni og kreistið safa úr appelsínunum og setjið bæði í pottinn ásamt sojasósu. Látið krauma í 30-40 mínútur þar til kjötið er orðið meyrt. Hellið næst rjómanum út í og bragðbætið með kjötkrafti, salti og pipar. Þykkið sósuna með sósujafnara. Setjið í skál og raðið appelsínusneiðum í kring. Borið fram með salati, brauði og hrísgrjónum.

Einfaldir og góðir réttir. Ég er ekki eftirréttaáhugamaður og læt þetta duga.

Að lokum langar mig að skora á Sigurð Svan Pálsson þúsundþjalasmið og bílaáhugamann.

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir