-6.3 C
Selfoss

Mosfellsheiði lýst í nýútkominni Árbók Ferðafélagsins

Vinsælast

Mosfellsheiði, landslag, leiðir og saga er viðfangsefni nýútkominnar Árbókar Ferðafélags Íslands, þeirrar 92. í röðinni, en árbókin hefur komið út árlega í óslitinni röð allt frá 1928. Höfundar árbókarinnar að þessu sinni eru þrír: Margrét Sveinbjörnsdóttir, menningarmiðlari frá Heiðarbæ í Þingvallasveit og vefritstjóri á skrifstofu Alþingis, Bjarki Bjarnason, rithöfundur, smali og forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, og Jón Svanþórsson, rannsóknarlögreglumaður og göngugarpur.

Öll eru þau þaulkunnug heiðinni og lýsa í bókinni náttúrufari hennar, landslagi og ferðaleiðum auk þess að færa lesendum sögulegan fróðleik þar sem Þingvellir koma mjög við sögu. Í kjölfar árbókarinnar kemur síðan út göngu- og reiðleiðabókin Mosfellsheiðarleiðir eftir sömu höfunda, þar sem 23 leiðir á heiðinni eru kortlagðar og þeim lýst í máli og myndum.

Varða á mótum Laufdælingastígs og Gamla Þingvallavegarins. Ljósmynd: Sigurjón Pétursson.

Víðlent heiðarflæmi innan lögsögumarka sex sveitarfélaga
Mosfellsheiði er víðlent heiðarflæmi sem rís hæst 410 metra yfir sjávarmál í Borgarhólum en þeir eru kulnuð eldstöð. Má með nokkurri einföldun segja að Þingvallavegur (nr. 36) og Suðurlandsvegur (nr. 1) rammi heiðina inn að norðan- og sunnanverðu, hún nái að íbúðarbyggð í Mosfellsbæ að vestanverðu og langleiðina að Þingvallavatni í austri. Heiðin er innan lögsögumarka sex sveitarfélaga. Þau eru Mosfellsbær, Reykjavíkurborg, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Sveitarfélagið Ölfus og Kópavogsbær. Eignarhaldið er ýmist á hendi sveitarfélaganna sjálfra eða einstakra bújarða en nafn heiðarinnar vísar til prestssetursins á Mosfelli í Mosfellsdal sem átti vesturhluta heiðarinnar til ársins 1933 þegar íslenska ríkið festi kaup á þeim hluta.

800 vörður hnitsettar
Þótt svæðið, sem nú er til umfjöllunar í árbókinni sé minna en oft áður má færa rök fyrir því að aldrei fyrr hafi jafnmargir lesendur átt svo auðveldan aðgang að viðfangsefni árbókar í sínu nánasta umhverfi. Mosfellsheiði hefur gegnt merkilegu hlutverki í sögu samgangna milli Innnesja og Árnessýslu frá upphafi og lumar á ótal skemmtilegum gönguleiðum, sumum vörðum prýddum.

„Við Bjarki slitum barnsskónum hvort sínu megin heiðarinnar og höfum löngum smalað þar fé, farið í göngu- og reiðtúra og þekkjum vel til örnefna og sögu svæðisins. Jón hefur á undanförnum árum rakið sig eftir vörðum á heiðinni, með nákvæmni rannsóknarlögreglumannsins, og hnitsett þær. Hann hefur talið um 800 vörður á heiðinni frá Þingvallavegi í norðri að Engidalsá vestan við Hengil í suðri. Langflestar þeirra standa við gamlar þjóðleiðir, þar af eru 100 vörður við Gamla Þingvallaveginn,“ segir Margrét og bætir við að á heiðinni sé að finna leiðir við allra hæfi. „Það er einfalt og aðgengilegt að komast að flestum leiðanna og í þeim tilgangi lýsum við nokkrum lykilstöðum, þar sem lagt er upp og auðvelt er að skilja bíla eftir,“ segir Margrét.

Draugatjörn er einn af lykilstöðunum þaðan sem lagt er upp í göngur yfir Mosfellsheiði. Ljósmynd: Þóra Hrönn Njálsdóttir.

Heillandi víðátta
Um Mosfellsheiði liggja fjölmargar leiðir frá ýmsum tímaskeiðum Íslandssögunnar og hún er kjörinn vettvangur fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. „Ekki spilla síðan fyrir þær fjölmörgu sögur sem tengjast heiðinni og ferðum um hana frá fyrri tíð, en vegna þess að yfir Mosfellsheiði liggja leiðir til Þingvalla kemur heiðin við sögu í ferðalýsingum flestra þeirra erlendu ferðabókahöfunda sem hingað komu á fyrri öldum. Margir þeirra lýstu heiðinni sem endalausu flæmi af grjóti og þótti hún heldur tilbreytingalaus – en aðrir nutu kyrrðarinnar og þótti víðáttan heillandi.“

Margar af þjóðleiðunum við það að týnast vegna notkunarleysis
Margrét bendir á að á gömlu þjóðleiðunum sé nú mun minni erill en áður var og margar þeirra séu við það að týnast vegna notkunarleysis. Það sama megi segja um örnefnin, sem áður gegndu mikilvægu hlutverki sem vegvísar fyrir ferðalanga. „Ein aðferð til að varðveita þjóðleiðirnar og örnefnin er einmitt að þau séu notuð og um þau talað og skrifað. Það er von okkar að göngu-, hesta-, skíða- og hjólafólk njóti þar náttúrufegurðar og útiveru í vaxandi mæli. Þar sem um fjölmargar og ólíkar leiðir er að velja höfum við ekki stórar áhyggjur af að átroðningur verði of mikill,“ segir hún.

Sæluhúsið í Moldbrekkum var byggt á mörkum Mosfellshrepps og Þingvallahrepps. Sköflungur og Hengill í fjarska. Ljósmynd: Sigurjón Pétursson.

Ljósmyndir segja meira en mörg orð
Fjöldi ljósmynda prýðir nýju árbókina og segja þær meira en mörg orð. „Við vorum svo ljónheppin að fá til liðs við okkur ljósmyndarana Sigurjón Pétursson og Þóru Hrönn Njálsdóttur, sem hafa farið ótal ferðir á heiðina til að ná réttu myndunum, í réttri birtu og frá réttu sjónarhorni,“ segir Margrét. „Sumum myndunum þurfti vissulega að hafa meira fyrir en öðrum, eins og til dæmis myndunum sem þau náðu loks eftir margar ferðir að greni í jaðri heiðarinnar; af tófu og yrðlingum.“

Árbókin að þessu sinni er 244 blaðsíður með 190 ljósmyndum og teikningum ásamt 19 uppdráttum Guðmundar Ó. Ingvarssonar. Auk mynda þeirra Þóru Hrannar og Sigurjóns sem voru beinlínis teknar fyrir útgáfuna eru birtar gamlar ljósmyndir úr ýmsum áttum. Að venju er í bókarlok yfirlit yfir starf Ferðafélagsins og deilda þess á landsbyggðinni á árinu 2018. Ritstjóri árbókarinnar er Gísli Már Gíslason og ritnefnd skipa auk hans Daníel Bergmann, Eiríkur Þormóðsson og Guðrún Kvaran.

Nýjar fréttir