-6.1 C
Selfoss

Sumarið er komið í Múlakoti

Vinsælast

Sumarstarfið er hafið í Múlakoti í Fljótshlíð. Búið er að taka fyrstu skóflustunguna í orðsins fyllstu merkingu. Nauðsynlegt var að endurnýja rafmagnsheimtaug í gamla bæinn sem ekki var einfalt mál því stysta leiðin var gegnum annan hvorn elsta garð Fljótshlíðarinnar, Guðbjargargarð eða Árnagarð. Á milli þessara tveggja garða er mjó tröð, aðeins 170 cm, svo úr vöndu var að ráða og einungis fyrir listamenn að vinna verkið. Þorsteinn Jónsson hjá Steina-Steini læddist á 150 cm breiðri gröfu upp tröðina og kom fyrir ídráttarröri fyrir RARIK, og þegar rafmagnið verður komið í hús ætla smiðirnir okkar að bretta upp ermarnar og taka til óspilltra málanna innanhúss.

Síðastliðið haust komu nemendur Garðyrkjuskólans að Reykjum enn í starfs- og námsheimsókn. Meðal annars endurunnu þeir tvö fjölæringabeð og gróðursettu ýmis konar blómplöntur. Sú vinna virðist hafa tekist með ágætum og plönturnar taka státnar á móti sumri og – vonandi – sól.

Sama gerir eplatréð, villieplið frá Alaska, frá því um 1944 og því lýðveldistré. Það er þegar komið með blómvísa og hefur ekki verið svona snemma á ferðinni síðustu 20 árin.

Garðhúsgögnin sem smíðuð voru úr 120 ára reynitrjám úr sjálfum garðinum, og vígð voru síðasta Ljósakvöld, eru komin út á dvalarsvæðið í garðinum.

Aðalfundur Vinafélags gamla bæjarins í Múlakoti var haldinn í maíbyrjun. Stjórnin er óbreytt og sama gildir um félagsgjöldin sem eru aðeins kr. 4.000 krónur. Garðurinn er opinn öllum sem hans vilja njóta, en þeir sem óska eftir leiðsögn um húsið þurfa að bóka fyrirfram.

Nýjar fréttir