-4.1 C
Selfoss

Hróp í myrkri

Vinsælast

Í síðustu Dagskrá mátti heyra hróp sjö flokka meirihlutans í Árborg – hróp í kolniðamyrkri. Haldið var fram að framkvæmdastopp hefði ríkt í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins í Árborg sl. 8 ár. Ætla mætti að höfundur greinarinnar hafi ekki séð dagsljósið allan þennan tíma. Undir greinina rita þrír bæjarfulltrúar B- og S-lista sem voru í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili. Voru þau ekki að fylgjast með framkvæmdum?

Hver var staðan árið 2010 þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við eftir 8 ára valdatíma Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar? Sveitarfélagið var djúpt sokkið í skuldafen. Fjármagnsgjöld námu mjög háum fjárhæðum og skuldahlutfallið, sem má mest vera 150%, var 206%. Sveitarfélagið var í gjörgæslu!

Með mikilli vinnu bæjarfulltrúa og starfsmanna tókst að ná skuldahlutfallinu niður í 124% og á sama tíma að byggja upp innviði. Til upprifjunar eru hér nefndar nokkrar fjárfestingar sem ráðist var í á þeim árum sem Sjálfstæðisflokkurinn var í meirihluta:

Tryggvagata og Kirkjuvegur, endurnýjun gatna og allra lagna
Sundhöllin, viðbygging og öll aðstaða stórbætt
Dælustöð fyrir heitt og kalt vatn á Eyrarbakka og Stokkseyri
Heitavatnsöflun – boranir
Lagning hitaveitulagna til að auka afkastagetu
Tvöföldun aðveitu hitaveitu
Björgunarmiðstöðinni bjargað
Vatnsveita, vatnsöflun og endurbætur á kerfum
Stækkun Sunnulækjarskóla, tvisvar sinnum
Göngustígar malbikaðir um allt sveitarfélagið
Göngustígar lagðir á milli byggðakjarna
Lausar stofur keyptar til að setja við Vallaskóla
Lokið við byggingu skóla á Stokkseyri
Gangstéttar miðsvæðis á Eyrarbakka og gatnalýsing endurnýjuð
Gangskör í viðhaldi skólans á Eyrarbakka, auk viðbyggingar
Viðbygging við íþróttahúsið á Stokkseyri
Byggð stúka á Selfossvelli
Skipt um gólf í Vallaskóla og annan búnað
Skipt um gólf í Iðu og ný áhorfendastæði
Miklar endurbætur á íþróttahúsinu á Stokkseyri
Bygging Hamars, verknámshúss í samvinnu við ríkið og önnur sveitarfélög
Útigörðum lokað í Vallaskóla
Hönnun hjúkrunarheimilis, hlutdeild á móti ríkinu
Félagsaðstaða fyrir eldri borgara
Ný dagdvöl í Grænumörk
Alger endurnýjun Sandvíkurskóla sem hýsir nú menntasetur
Lagning Larsenstrætis
Kaup á landi fyrir Svarfhólsvöll, tryggt land fyrir 18 holu völl
Kaup á byggingarlandi í Laugardælum
Fjármagn í reiðvöll og til lagningar reiðstíga
Gatnagerð í Hagalandi
Verulegt átak í viðhaldi fasteigna eftir áralanga vanrækslu

Þessi listi er engan veginn tæmandi, en á síðustu tveimur kjörtímabilum var lögð áhersla á uppbyggingu nauðsynlegrar grunnþjónustu. Leitast var við að mæta vaxandi íbúafjölda með því að hafa næg leikskólapláss og aðstöðu í grunnskólum eins og þörf var á. Það virðist ekki vera mikilvægt lengur. Nú er staðan sú að á biðlista eftir leikskólaplássi eru 52 börn. Ekkert hefur komið fram um að brugðist verði við þeim vanda. Á því ári sem liðið er af kjörtímabilinu hefur sjö flokka meirihlutanum ekki tekist að koma einu einasta verkefni í framkvæmd. Ekki svo mikið sem ein veðurstöð hefur risið undir stjórn sjö flokka meirihlutans!

Bæjarfulltrúar D-lista í Sveitarfélaginu Árborg:
Gunnar Egilsson,
Kjartan Björnsson,
Ari B. Thorarensen,
Brynhildur Jónsdóttir.

Nýjar fréttir