-6 C
Selfoss

Greining tækifæra og ávinnings af friðlýsingu svæða á Suðurlandi

Vinsælast

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Eva Björk Harðardóttir, formaður Sambands sunnlenskra sveitarfélaga, skrifuðu fyrir skömmu undir samning á Selfossi um greiningu tækifæra og áhrifa friðlýstra svæða á Suðurlandi.

Verkefnið er ein aðgerða í Byggðaáætlun 2018–2024 en er einnig hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar um sérstakt átak í friðlýsingum. Verkefnið byggir á greiningu á hagrænum áhrifum friðlýstra svæða sem Hagfræðistofnun Háskólans hefur unnið fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Veitt er 7 milljónum til verkefnisins. Sambærileg verkefni verða unnin í öðrum landshlutum.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga óskuðu eftir innsendum tillögum að svæðum frá hagaðilum innan landshlutans. Út frá þeim tillögum sem bárust er stefnt að tveimur verkefnum í landshlutanum. Annars vegar um verndun jarðvætta (e. geosites) í Kötlu jarðvangi, einkum þau svæði sem metin eru alþjóðlega mikilvæg. Hins vegar um svæði vaðfugla í Skarðsfirði og á leirum með aðkomu Náttúrustofu Suðausturlands. Greindar verða mögulegar sviðsmyndir fyrir svæðin til að leggja mat á möguleg hagræn áhrif ef svæðin yrðu friðlýst eða verndun þeirra aukin. Loks verða mótaðar hugmyndir um þróun svæðanna og möguleg tækifæri þeirra.

„Það gleður mig að sjá Sunnlendinga nú komna í hóp með Austfirðingum sem vilja greina tækifærin sem geta skapast með friðlýsingu svæða. Nýleg rannsókn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem unnin var í tengslum við átak í friðlýsingum, sýnir glöggt hvaða efnahags- og samfélagslegi ávinningurinn af friðlýstum svæðum getur verið mikill þegar hver króna sem lögð er til friðlýstra svæða skilar sér 23 sinnum til baka“, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Nýjar fréttir