Bólusetningar ungbarna eru ein mesta forvörn sem við höfum í heiminum í dag. Bólusetningar koma í veg fyrir dauða um þriggja milljóna barna og að 750.000 börn verði örkumla árlega, þrátt fyrir þetta deyja um tvær milljónir barna úr sjúkdómum sem hægt er að bólusetja fyrir. Þau hugtök sem hafa þarf í huga þegar rætt er um bólusetningar er þekjun og hjarðónæmi. Þegar hópur fólks er bólusettur þá myndast svokallað hjarðónæmi hjá þeim sem ekki láta bólusetja sig. Þetta stafar af því að bakteríurnar og veirurnar sem valda sýkingum eiga erfiðara uppdráttar að skjóta sér niður þegar stór hópur hefur verið bólusettur gegn þeim. Því hagnast þeir sem ekki láta bólusetja sig og hljóta vernd á því að aðrir eru bólusettir. Til þess að hjarðónæmi náist verður þekjun þeirra sem bólusettir eru að ná ákveðinni prósentu af heildarfjölda íbúa. Þessi þekjun er mismundandi eftir því um hvaða sjúkdóma ræðir. Sem dæmi má nefna að til að hjarðónæmi náist gegn mislingum þarf þekjun að vera 90%. Þekjun fyrir hettusótt, rauðum hundum, mænusótt og barnaveiki þarf að vera 80–85% til að hjarðónæmi náist. Þekjun fyrir mislingum á heimsvísu er ekki nema um 80% og því eru enn að greinast mislingatilfelli út um allan heim. Hér á Íslandi hefur þekjun fyrir mislingum farið lækkandi vegna fleiri foreldra og forráðamanna barna sem taka þá ákvörðun að láta ekki bólusetja börnin sín. Mikilvægt er að það gleymist ekki að hér á Íslandi eru börn ekki bólusett fyrir mislingum fyrr en 18 mánaða gömul og því eru þau í raun óvarin fram að þeim aldri. Um það bil 10% þeirra sem sýkjast af mislingum fá alvarlega fylgikvilla svo sem heilabólgu eða lungnabólgu. Í dag ferðast Íslendingar meira til framandi landa, straumur erlendra ferðamanna til landsins eykst stöðugt og nýbúum fjölgar.
Við urðum því miður óægilega minnt á þetta nú nýverið þegar upp komu sjö mislingatilfelli hér á Íslandi.
Engar gagnreyndar rannsóknir liggja fyrir um að mislingabóluefnið geti valdið einhverfu. Nauðsynlegt er að fólk geri sér grein fyrir hættunni sem það setur börn sín í þegar ákveðið er að bólusetja þau ekki. Forsendur eru oft óljósar og erfitt að skilja rökin sem liggja að baki ákvörðuninni. Er líf barnanna ekki það mikilvægasta? Er forsvaranlegt að treysta á að aðrir bólusetji börnin sín til að ná nógu góðri þekjun svo að hjarðónæmi náist, dæmi hver fyrir sig.
F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Unnur Þormóðsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslustöðvar Selfoss