3.4 C
Selfoss
Home Fréttir Lífið er of stutt fyrir leiðindi

Lífið er of stutt fyrir leiðindi

0
Lífið er of stutt fyrir leiðindi
Heiðrún Dóra Eyvindardóttir.

Heiðrún Dóra Eyvindardóttir, lestrarhestur Dagskrárinnar, er forstöðumaður Bókasafns Árborgar og með meistaragráðu í bókasafnsfræðum frá Háskóla Íslands. Hún er fædd í Reykjavík en er að þremur fjórðu hlutum úr Árnssýslu, dóttir Eyvindar Erlendssonar leikstjóra og Sjafnar Halldórsdóttur fyrrverandi kaupmanns og eiganda Sjafnarblóma á Selfossi. Hún segist vera stórfjölskyldubarn því hún ólst mikið upp hjá ömmum sínum og öfum.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Það kemur trúlega engum á óvart að ég hef þokkalega gaman af að lesa og hef alltaf stafla á náttborðinu, en viðurkenni fúslega að sumt fer ólesið aftur á safnið. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að lífið sé of stutt til að lesa leiðinlegar bækur, hörmungarbækur um hræðileg örlög dettur mér ekki í hug að leggja á mig lengur. En núna er ekkert slíkt á mínu náttborði, þar er bók sem heitir Silkworm sem er númer tvö í sakamálaseríu eftir Robert Galbraith sem er dulnefni J. K. Rowling. Fínar sakamálasögur hjá henni og sögupersónur sem gaman er að kynnast. Ég er líka loksins að lesa Bláu trén í Friðheimum og það kemur til af því að leshringurinn á Bókasafninu er að lesa hana núna fyrir maí hittinginn. Ég hef aldrei verið í leshring áður og það koma mér á óvart hvað mér finnst það skemmtilegt að deila áliti með fólki og fá aðra sýn á bók sem maður hefur verið að lesa. Svo er ég með bók sem ég er búin að vera með í marga mánuði en sú heitir Jonathan Strange and Mr. Norrell eftir Susanna Clark. Einn vinnufélagi minn á safninu benti mér á hana og hún er alveg frábær ritsmíð en skrifuð á biblíuletri og svo er hálf síðan neðanmálsgrein með smásmáaletri og ég þyrfti bæði gleraugu og stækkunargler en samt tími ég ekki að fara á hundavaði yfir hana af því hún er svo vel skrifuð og skondin. Hún fjallar um meinta endurreisn galdrasamfélagsins á Englandi á nítjándu öld. Ég hef mjög gaman af svona ævintýrabókum og mesta gróskan í skrifum núna er í fantasíum og margir frábærir höfundar að skrifa á þeim akri.

Ertu alin upp við lestur bóka?
Ég las grimmt sem krakki en man ekki mikið eftir að það hafi verið lesið fyrir mig. En ég man að við systkynin sváfum í þremur kojum – ég á miðhæðinni – og var sú eina sem fékk lampa í kojuna mína því það þýddi ekki að biðja mig um að hætta að lesa. Og eins og hjá mörgum af minni kynslóð var Enid Blydon í uppáhaldi. Ævintýrabækurnar sérstaklega, svo rauðu bækurnar sem var flokkur barnabóka meðal annars Pollýanna og Stjarna vísar veginn og fleiri bækur. Get ekki sagt að þessar bækur eldist mjög vel en mér þótti hinsvegar gaman að lesa Hildu á Hóli aftur. Þær bækur eru allmerk lýsing á högum fátæks fólks. En ég las bara allt sem var til. Ég hélt til að mynda að Barnæska mín eftir Maxím Gorkí væri barnabók og barðist í gegnum hana en ákvað svo að láta framhaldið eiga sig. Ég fór á Jesus Krist Súperstar þegar ég var þrettán ára og gerðist ofurtrúuð og þar með þurfti ég að lesa Biblíuna og barðist í gegnum gamla testamentið og hætti þar bæði biblíulestri og trú.

Áttu þér einhverja uppáhalds bækur eða höfunda?
Ég elskaði skólaljóðin mín og mörg ljóðanna þar eiga enn stað í hjarta mínu og ég upplifði þau og skynjaði eins og sögur og sannleika. Ég las talsvert af ljóðum sem krakki og fram á táningsár en einhverra hluta vegna er ég ekki jafn dugleg við það lengur. Dáist samt einlæglega að góðum höfundum eins og Elísabetu Jökulsdóttur sem getur sagt heila og merkilega sögu í tveimur til þremur línum og Blóðhófnir hennar Gerðar Kristnýjar er í algjöru uppáhaldi hjá mér. En ég held samt að Gyrðir Elíasson komist næst því að vera uppáhalds. Það er eins og textinn hans hreinsi í mér blóðið. Hann rennur svo fallega fram.

En lestrarvenjur þínar. Hvernig eru þær?
Ég les í skorpum. Ég hef alltaf eitthvað að fletta og einstaka sinnum dett ég á bólakaf í bók og finnst veruleg truflun af svefni og vinnu og þessháttar óþarfa sem erfitt er að komast hjá. Ég elska slíkar bækur. Fyrir ótal mörgum árum síðan fékk ég í hendur bók sem hafði ferðast með íslenskri kunningjakonu minni alla leið frá Nýja Sjálandi. Bókin heitir The Bone People og er eftir konu sem heitir Keri Hulme sem er Maori að hluta. Fyrstu þrjátíu síðurnar voru fyrirhöfn en eftir það var það hreint kvalræði að þurfa að gera eitthvað annað en lesa. Ég endaði á að hringja mig inn veika í vinnuna einn dag og skammast mín ennþá svolítið en ég var samt nánast aldrei veik svo ég ákvað að mér fyrirgæfist. Það er líka merkilegt með bækur að þær eiga sumar sinn tíma. Bókaþjófurinn er til dæmis bók sem ég reyndi aftur og aftur að lesa og komst aldrei lengra en á blaðsíðu 20. Svo í fjórða eða fimmta skiptið sem ég tók hana þá allt í einu var þetta þvílíkt góð saga og auðlesin.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Sjálf er ég því miður hæfileikalaus þegar kemur að bókaskrifum en herra minn hattur hvað það hlýtur að vera gaman að geta skrifað bækur eins og Harry Potter sem fær kynslóðir til að bíða í biðröðum eftir næstu bók og gefur óteljandi litlum og stórum lesurum gæðastundir sem gleymast ekki.