-6.1 C
Selfoss
Home Fréttir Fólk ræður hvað það greiðir fyrir bækurnar

Fólk ræður hvað það greiðir fyrir bækurnar

0
Fólk ræður hvað það greiðir fyrir bækurnar
Dagný Dögg Sigurðardóttir, verslunarstjóri Nytjamarkaðsins á Selfossi. Mynd: ÖG.

„Fólk kemur hingað og gefur okkur bækur. Það eru að koma einhverjar bækur nánast á hverjum einasta degi. Við fáum mjög mikið magn af bókum og reynum að koma sem mestu út. Það er mikil hreyfing á þeim sem betur fer,“ segir Dagný Dögg Sigurðardóttir, verslunarstjóri Nytjamarkaðsins á Selfossi.

„Það eru frjálsframlög þegar fólk kemur og kaupir bækur hjá okkur. Það þýðir að fólk ræður hvað það greiðir fyrir bækurnar. Það á við um flestar bækurnar. Teiknimyndasögurnar seljum við reyndar á 500 krónur og er það alltaf fast. Eins ef við fáum verðmætari fornbækur þá eru þær verðmerktar sér. Lang stærstur hluti bókanna er þannig að fólk fær að velja hvað það borgar. Flestir borga 100–300 krónur fyrir bókina. Síðan er fólk sem er að borga 10–20.000 fyrir tvær bækur. Það er þá að hugsa það sem styrk til okkar. Stundum kemur fólk og tekur nokkra kassa af bókum og veitir okkur einhvern styrk á móti. Ég er sjálf svo mikill bókaormur að mér finnst mikil synd að bækurnar fari í endurvinnslu. Þannig að ég er ánægð með þetta fyrirkomulag. Það erfitt að segja hvað fer mikið af bókum frá okkur en það fara nokkrar bækur á hverjum einasta degi. Síðan kemur sumarbústaðafólkið mikið til okkar á sumrin. Þá koma þau og taka alveg bunkann af bókum. Mesta hreyfingin á bókunum er um helgar eða fyrir þær. Þá er rosalega mikið að fara.“