-3.1 C
Selfoss
Home Fréttir Samningur um afsetningu á sorpi í Ölfusi

Samningur um afsetningu á sorpi í Ölfusi

0
Samningur um afsetningu á sorpi í Ölfusi

Fyrir fundi bæjarstjórn Ölfuss, sem haldinn var 30. apríl sl., lá samningur við Íslenska gámafélagið um að lágmarka það magn sem fer til urðunar með því að senda efni sem annars færi til urðunar til orkunýtingar í Evrópu.

Í fundargerð frá fundinum kemur fram að Sveitarfélagið Ölfus hefur undanfarin ár stefnt að því að flokka sem allra mest af þeim úrgangi sem fellur til frá heimilum. Þar segir einnig að sveitarfélagið sé án efa meðal framsæknustu sveitafélaga í þeim efnum þar sem íbúum er gert skylt að flokka úrgang frá heimilum í fjóra flokka. Einn þeirra flokka er almennur úrgangur og hefur sá flokkur farið í urðun hingað til.

Með samningnum við Íslenska gámafélagið er sveitarfélagið að leita leiða til að nýta það hráefni til orkunýtingar í brennslustöð í Rotterdam. Veður orkan sem fæst við brunann nýtt til framleiðslu á heitu vatni og rafmagni til notkunar í Rotterdam. Verði framvindan sú sem sveitarfélagið bindur vonir við verður hægt að nýta yfir 95% af þeim úrgangi sem fellur til frá heimilum í Ölfusi til einhverskonar endurvinnslu. Samningurinn er gerður til eins árs og gildir frá 1. maí 2019. Verð fyrir hvert kg er 29 kr. án vsk og miðast við gengi evru.

Á bæjarstjórnarfundinum var eftirfarandi tillaga lögð fram og samþykkt samhljóða:
„Bæjarstjórn er jákvæð fyrir því að gengið verði til samninga sem tryggt geta umhverfisvænni og hagkvæmari kosti en nú er. Með vísan í innkaupareglur sveitarfélagsins felur bæjarstjórn bæjarstjóra að láta fara fram athugun á því hvort að fleiri aðilar bjóði upp á samsvarandi þjónustu og sé svo að fyrir liggi mögulegur kostnaður við slík þjónustukaup. Að því gefnu að fjárhæðir og þjónusta eins og hún kemur fram í þeim samningi sem liggur fyrir sé sú hagstæðasta sem býðst samþykkir bæjarstjórn samninginn og felur bæjarstjóra að ganga frá undirritun hans“.