-3.2 C
Selfoss
Home Fréttir Framkvæmdir og fjárfestingar í Árborg

Framkvæmdir og fjárfestingar í Árborg

0
Framkvæmdir og fjárfestingar í Árborg
Sveitarfélagið Árborg
Gísli Halldór Halldórsson.

Magnús Gíslason, varabæjarfulltrúi D-lista og formaður Sjálfstæðisfélagsins Óðins, skrifaði í Dagskrána, þann 8. maí, um framkvæmdir og fjárfestingar sem framundan eru í Sveitarfélaginu Árborg. Magnús lýsir miklum áhyggjum af djörfum fyrirætlunum um uppbyggingu í sveitarfélaginu.

Það er ekki óeðlilegt að minnihluti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn og jafnvel aðrir íbúar hafi áhyggjur af stórum hugmyndum um uppbyggingu í Árborg. Eftir langan tíma með litlum stórframkvæmdum er viðbúið að fólk spyrji sig hvort nú sé hægt að framkvæma.

Sérstakar og krefjandi aðstæður eru nú til staðar í Árborg vegna mikillar íbúafjölgunar og uppsafnaðrar þarfar á framkvæmdum. Það er því ekki í boði að hugsa smátt og nauðsynlegt að leita allra leiða sem færar eru – með farsæld íbúa og sjálfbæran fjárhag sveitarfélagsins að leiðarljósi.

Það er hlutverk bæjarstjóra að tryggja að fyrirætlanir bæjarstjórnar og ákvarðanir nái fram að ganga. Jafnframt er það eitt mikilvægasta verkefni bæjarstjóra að tryggja að rekstur sveitarfélagsins og tilhögun fjárfestinga sé með þeim hætti að efnahagur og ársreikningar sveitarfélagsins verði til fyrirmyndar og reksturinn sjálfbær til lengri tíma.

Það er enginn efi í huga mér að með öflugri sveit starfsfólks á endurskipulögðu fjármálasviði Árborgar muni takast að tryggja ábyrgan rekstur og góðan efnahag sveitarfélagsins. Á þeim góða grunni mun einnig lagður hornsteinn að meiri og betri árangri en áður hefur náðst í sveitarfélaginu.

Um lántökur og fjárhagsáætlun
Sjálfstæðismenn setja fram áhyggjur sínar um að Árborg hafi ekki greiðan aðgang að lánsfé frá Lánasjóði sveitarfélaga. Misskilningur þeirra á rætur að rekja til tafa í afgreiðslu Lánasjóðsins sem stöfuðu af framsetningu fjárhagsáætlunar og þeirri hefð sem hér hefur skapast við gerð fjárhagsáætlana sveitarfélagsins.

Það hefur sumsé ekki tíðkast að gera ráð fyrir fjölgun íbúa þegar fjárhagsáætlanir eru gerðar fyrir Svf. Árborg. Þegar fjölgun íbúa er 5–6% árlega, með tilheyrandi aukningu í skatttekjum sveitarfélagsins, liggur í augum uppi að slík fjárhagsáætlun gefur ranga mynd. Þetta sýnir sig glögglega í ársreikningi vegna ársins 2018 sem lagður var fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 30. apríl.

Mikil fjölgun íbúa kallar á miklar fjárfestingar í innviðum en eykur jafnframt tekjur sveitarfélagsins. Ef tekjuaukningin sést ekki í fjárhagsáætlun, á móti þeim fjárfestingum sem ráðast þarf í, þá er hætt við að lánveitendur staldri við. Vanáætlaðar tekjur virðast þá ekki bera fyrirhugaðar fjárfestingar. Lánasjóðurinn gerði sér þó fyllilega grein fyrir að Sveitarfélagið Árborg réði við lántökurnar.

Bæjarstjóri hefur nú tekið forsendur fjárhagsáætlunar til endurskoðunar. Fjármálasvið mun, fyrir fund bæjarstjórnar í júní, skila hugmyndum að endurbótum á fjárhagsáætlun. Á því leikur enginn vafi að þá mun fást betri mynd af rekstri sveitarfélagsins til næstu ára og mun það auðvelda afgreiðslu lána frá Lánasjóði sveitarfélaga, hvort heldur er til endurfjármögnunar eða nýrra fjárfestinga.

Um aðrar leiðir til fjármögnunar
Aðkoma lífeyrissjóðanna að fjármögnun stórra fjárfestingarverkefna í innviðum sveitarfélagsins hefur verið til skoðunar – og þá ætíð með hagsmuni sveitarfélagsins og íbúa þess að leiðarljósi. Sjálfstæðismenn snúa út úr og afgreiða málið með einföldum og klassískum hætti, verið sé að selja fráveituna og það sé einfaldlega galið.

Staðreyndin er þó sú að fráveitan yrði áfram í meirihlutaeigu Árborgar, ef fjármögnun lífeyrissjóðanna kæmi til. KPMG hefur unnið úttekt fyrir sveitarfélagið og niðurstaðan er að þetta er vel framkvæmanlegt og gæti haft mjög jákvæð áhrif á efnahag sveitarfélagsins og getu þess til fjárfestinga. Þessar niðurstöður hafa verið kynntar í bæjarráði og verða kynntar bæjarstjórn í aðdraganda bæjarstjórnarfundar 15. maí. Ljóst er af úttekt KPMG að vanda þarf vel til allrar samningagerðar ef ákvörðun verður tekin um aðkomu lífeyrissjóðanna. Umrædd leið er ekkert hókus pókus dæmi, heldur væri um að ræða raunverulegt nýtt eigið fé til Árborgar með auknum möguleikum til fjárfestinga.

Ekki yrði þörf á að hækka fráveitugjöld á íbúa vegna aðkomu lífeyrissjóðanna og stendur ekki til. Til margra ára hefur verið gerð 7% arðsemiskrafa til fráveitunnar, frá aðalsjóði Árborgar, og er það hærra en arðsemiskrafa lífeyrissjóðanna. Fráveitugjöld í Árborg eru þegar í hærri kantinum og ofangreind leið fjármögnunar frá lífeyrissjóðunum verður aldrei farin ef það kallar á hækkun fráveitugjalda. Það kemur hreinlega ekki til greina.

Kostnaður af fjármögnun frá lífeyrissjóðunum með ofangreindum hætti er hinsvegar meiri en af lánsfé frá Lánasjóðnum, eða um 6,7% á móti um 2,6%, eins og kjörin eru í dag. Þess vegna verður lántaka frá Lánasjóðnum alltaf fyrsti kostur og mun vonandi duga til að ljúka öllum þeim fjárfestingum sem þörf er á í Árborg.

Uppbygging íþróttamannvirkja
Íþróttir eiga sér sterkar rætur í Árborg og eru lykillinn að góðu samfélagi. Það er því eðlilegt að við setjum markið hátt. Til að framhald verði á góðum árangri okkar íþróttafólks þarf aðstöðu til æfinga og keppni eins og best gerist. Ef við sættum okkur við eitthvað minna en það besta þá munum við fá einmitt það.

Nú er unnið að undirbúningi fjölnota húss sem í fyrsta áfanga mun hýsa hálfan fótboltavöll og aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir. Verið er að skoða hvernig fjárfestingunni verður best dreift á framkvæmdatímanum. Þar er horft til hagkvæmni og heppilegrar greiðsludreifingar þannig að bæjarsjóður geti tekist á við verkefnið með farsælum hætti. Markið er nú sett á að ljúka þessum áfanga á árinu 2021, enda er verkefnið of stórt til að því megi ljúka á næsta ári.

Tekjuöflun í fjárfestingaráætlun
Óþarfar eru áhyggjur formannsins yfir sölu lóða og fjárfestingum í gatnagerð. Tekjum af lóðasölu er eingöngu ætlað að fjármagna gatnagerð og veituframkvæmdir og eru þær því ekki undirstaða fyrir önnur rekstrargjöld sveitarfélagsins. Það hefur tafist að hægt væri að hefja framkvæmdir við gatnagerð í Björkustykki og gæti jafnvel seinkað fram yfir áramót. Bæjarsjóði verður í lófa lagið að stilla saman gatnagerð og gatnagerðargjöldum. Engu tjóni veldur þó færa þurfi þessar stærðir að einhverju leyti milli ára í fjárhagsáætlun.

Mikilvægt er að leggja aukna áherslu á að samræma framboð lóða við þarfir markaðarins. Einnig þarf að skipuleggja vel sölu lóða og gatnagerðarframkvæmdir, með hliðsjón af greiðsluflæði sveitarsjóðs og þannig að framkvæmdir gangi vel fyrir sig. Allt er þetta hægt og snýst fyrst og fremst um gott skipulag.

Styrkari stoðir
Vel hefur gengið að innleiða hjá sveitarfélaginu nýtt skipurit sem ætlað er að auðvelda starfsfólki að ná hámarksárangri. Almennt hefur starfsfólk verið tilbúið í breytingar, enda vissu flestir að breytinga var þörf til að takast á við vaxandi verkefni í Árborg.

Gott skipulag, valdefling starfsfólks og nýjar tæknilausnir, sem bjóðast í dag, mun auðvelda fólki störfin, flýta fyrir, bæta gæði og draga úr hættu á mistökum. Þessi vinna stendur yfir og gengur hratt og vel. Meðal annars er horft til ábendinga sem fram komu í úttekt Haraldar L. Haraldssonar í þeirri vegferð að gera betur í rekstri sveitarfélagsins.

Með góðu starfsfólki sem hefur tæki, tól, stuðning og skýr markmið til að ná fram sínu besta í þágu íbúanna, munu íbúar fá að sjá og taka þátt í miklum framförum í sveitarfélaginu á næstu árum.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg.