-0.7 C
Selfoss
Home Fréttir Til hamingju með daginn kæru fjölskyldur!

Til hamingju með daginn kæru fjölskyldur!

0
Til hamingju með daginn kæru fjölskyldur!
Ragnheiður Kristín Björnsdóttir.

Alþjóðadagur fjölskyldunnar er 15. maí. Það var að tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna árið 1994 að 15. maí var tileinkaður fjölskyldum heims. Markmið alþjóðlega dagsins er að vekja fólk til umhugsunar um þau vandamál sem steðja að fjölskyldum og að eyða fordómum gegn hinum ýmsu fjölskylduformum ásamt því að vekja athygli á þeim áhrifum sem félagsleg og efnahagsleg þróun hefur á fjölskyldur. Allar fjölskyldur eiga að hafa sömu tækifæri í heiminum án tillits til samsetningar, trúar og stærðar. Árlegt þema dagsins snýr að bættri menntun, loftslagsmálum og sjálfbærni. Í tilefni dagsins langar mig að vekja athygli á og kynna fjölskyldumeðferð veitta af fjölskyldufræðingum sem jákvætt úrræði þegar vandamál koma upp í fjölskyldum.

Menntun fjölskyldufræðinga
Nám í fjölskyldumeðferð geta einstaklingar sótt sem lokið hafa háskólanámi í heilbrigðis – eða félagsvísindum eða annarri sambærilegri menntun. Fjölskyldumeðferðarnámið er fjögurra missera diplómanám á meistarastigi kennt í Endurmenntun Háskóla Íslands. Stór hluti námsins er að kenna nemendum að þekkja sjálfa sig og hvers vegna brugðist er við áreitum á ákveðinn hátt. Fjölskyldusaga nemenda er skoðuð með tilliti til áfalla og samskipta innan fjölskyldunnar og hvaða áhrif þessir þættir hafa haft á viðkomandi. Fjölskyldufræðingar hafa einnig fengð þjálfun og kennslu í því að rýna í samskipti, samskiptamynstur og hvers vegna samskipti innan fjölskyldna hafa mismunandi áhrif á einstaklingana.

Góð tengsl hafa forvarnargildi
Fjölskyldufræðingar líta svo á að fjölskyldan sé ein áhrifamesta eining þjóðfélagsins varðandi mótun og þroska einstaklinga. Fjölskyldur eru allskonar og skilgreindar á mismunandi hátt milli einstaklinga. Mikilvægt er að átta sig á að hver fjölskylda er einstök. Góð tengsl í fjölskyldum hafa mikið forvarnargildi varðandi félagslega, andlega og líkamlega líðan. Fjölskyldufræðingar líta á alla fjölskylduna sem eitt kerfi þar sem hver einstaklingur verður fyrir áhrifum af fjölskyldunni og fjölskylduheildin fyrir áhrifum af einstaklingum innan hennar.

Fjölskyldumeðferð
Fjölskyldumeðferð er árangursríkt og gagnreynt meðferðarúrræði þar sem tekið er mið af áhrifamætti fjölskylduheildarinnar og velferð hennar höfð að leiðarljósi.
Meðferðin er fyrir fjölskyldur, pör, og einstaklinga sem eiga í samskipta- og tengslavanda, eiga í erfiðleikum með uppeldi barna og unglinga, búa við andleg eða líkamleg veikindi, vanlíðan, kynlífsvanda, takast á við áföll, sorg eða breytta fjölskylduhagi í kjölfar skilnaðar eða missis svo eitthvað sé nefnt. Fjölskyldumeðferð miðar að því að auka skilning á eigin aðstæðum og annara fjölskyldumeðlima eftir því sem við á og hjálpar fólki að koma auga á eigin bjargráð og hrinda þeim í framkvæmd. Sérstaða fjölskyldumeðferðar er að unnið er með fleiri en einn í einu og heildarmyndin skoðuð. Fjölskyldufræðingar eru í raun sérfræðingar í samskiptum. Umfangsmikil rannsókn (440.000) sem kölluð hefur verið ACE rannsóknin hefur staðfest samband milli áfalla í æsku við geðrænan og líkamlegan heilsufarsvanda síðar á ævinni.

Andleg og líkamleg heilsa í forgang
Fjölskyldufræðingar starfa margir hverjir sjálfstætt á stofum. Félag fagfólks í fjölskyldumeðferð vinnur að því að sækja um löggildingu fyrir þá sem starfa á sviði fjölskyldumeðferðar. Mikilvægt er að hlúa sem best að fjölskyldum og einstaklingum og stuðla að betra heilbrigði í okkar samfélagi. Íslendingar eru m.a. aðilar að Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, sem lögfestur var á Íslandi árið 2013, þar segir að stjórnvöld eigi að veita foreldrum viðeigandi aðstoð til þess að geta uppfyllt uppeldisskyldur sínar. Ef vel á að vera þarf að koma til niðurgreiðsla á þjónustu sjálfstætt starfandi fjölskyldufræðinga og fjölga þarf stöðugildum á opinberum stofnunum sem koma að málefnum fjölskyldna og einstaklinga.

Ragnheiður Kristin Björnsdóttir, fjölskyldufræðingur og hjúkrunarfræðingur hjá Lausninni, fjölskyldu- og áfallamiðstöð.