-6 C
Selfoss

Hjólað í vinnuna hófst í morgun

Vinsælast

Almenningsíþróttaverkefnið Hjólað í vinnuna var sett í sautjánda sinn í morgun í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Reykjavík. Þátttakendum var boðið að hjóla við og þiggja ljúffengt bakkelsi. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu og sveitarstjórnarráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, fluttu stutt hvatningarávörp og að þeim loknum hjóluðu gestir og þátttakendur átakið formlega af stað.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir Hjólað í vinnuna, dagana
8.–28. maí. Verkefninu er ætlað að höfða til starfsfólks á vinnustöðum landsins og hefur þátttakan margfaldast á þeim 16 árum sem liðin eru frá því að verkefnið fór af stað. Undanfarinn áratug hefur orðið gríðarleg vakning á hjólreiðum sem heilsusamlegum samgönguvalkosti. Ætla má að margir þátttakendur hafi tekið hjólreiðar upp sem lífstíl í framhaldi af þátttöku sinni í verkefninu. Verkefnið hefur stuðlað að bættri hjólamenningu á Íslandi og orðið til þess að vinnustaðir og sveitafélög hafi bætt til muna aðstöðu fyrir hjólandi fólk.

Meginmarkmið Hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Þátttakendur eru hvattir til þess að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta annan virkan ferðamáta til og frá vinnu. Keppt er um fjölda þátttökudaga en lið geta jafnframt skráð sig í kílómetrakeppnina þar sem keppt er um heildarfjölda kílómetra. Landsmenn hafa tekið átakinu gríðarlega vel frá upphafi og verkefnið skapað alla jafna góða stemningu á vinnustöðum landsins.

Nýjar fréttir