3.9 C
Selfoss

Nemendur í BES vinna markvisst í góðum samskiptum

Vinsælast

Það stóð mikið til í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri í morgun. Verið var að leggja loka hönd á „Samskiptasáttmála Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri“. Hvert barn var búið að leggja til eina setningu í sáttmálann sem miðar að því að bæta samskipti og vinna gegn einelti í skólanum. Krakkarnir fóru á sameiginlegan fund á sal þar sem hver bekkjardeild tók samskiptasáttmála bekkjarins og fann honum stað á veggjum skólans til áminningar fyrir nemendur og starfsfólk skólans.

Góð samskipti mikilvæg

Við skólann starfar öflugt samskiptateymi fjögurra starfsmanna sem vinna eftir Olweusaráætluninni gegn einelti. Megin markmið þess teymis er að efla gæði samskipta og vinna gegn einelti. Samskiptasáttmálinn virkar þannig að hver nemandi semur eina setningu þar sem hann segir frá því með hvaða hætti hann leggur sitt á vogarskálar góðra samskipta og svo innsiglar nemandinn heiti sitt með eigin fingrafari. Sáttmálinn hefur mælst vel fyrir og eru nemendur ánægðir með að fá að vinna að góðum samskiptum með þessum hætti,“ segir Páll Sveinsson, aðstoðarskólastjóri BES.

Öllum hollt að velta fyrir sér mikilvægi góðra samskipta

Á samskiptasáttmálum bekkjanna sést strax að það eru ekki einungis börnin sem hefðu gott af því að temja sér góð samskipti því þau koma vísast að góðum notum út lífið. Ef við lítum á nokkrar setningar er ljóst að þær er heppilegt að taka með sér og nota inn í daginn.

„Ég ætla að vera hjálpsamur.“ „Bannað að stríða öðrum.“ „Vera góður hlustandi.“ „Sýna þeim sem við tölum við áhuga.“ „Góð samskipti eru þegar tveir aðilar geta talað saman með góðu flæði og þar er skilningur og jákvæðni á milli þeirra.“

 

Nýjar fréttir