Dagur harmonikunnar er fyrsti laugardagur í maí ár hvert og verður haldið upp á hann af harmonikuunnendum víða um land. Samband íslenskra harmonikuunnenda, sem stendur fyrir deginum, er vettvangur fjórtán harmonikufélaga vítt um landið.
Hér austanfjalls verður ekkert gefið eftir. Harmonikufélag Rangæinga og Harmonikufélag Selfoss verða með uppákomur í tilefni dagsins en þessi tvö félög hafa starfað náið saman undanfarin ár með prýðisgóðum árangri. Í tilefni af deginum eða þann 4. maí mun sameinuð harmonikusveit þessara tveggja félaga troða upp í Skyrgerðinni í Hveragerði kl. 14:00 ásamt gestum og daginn eftir eða 5. maí á handverkssýningu eldri borgara í Hvoli Hvolsvelli, einnig kl 14:00. Spiluð verða létt og skemmtileg lög bæði gömul og ný og gaman er að geta þess að stór hluti laganna eru sunnlenskrar ættar.
Einnig er vert að geta þess að „Harmonikufélag Rangæinga yngri“ hefur verið stofnað, en félagið samanstendur af tíu nemendum Tónlistarskóla Rangæinga sem allir eru að læra á harmonikur undir handleiðslu Eyrúnar Gylfadóttur sem einnig er nemandi við skólann. Hún tók við kennslunni af Grétari Geirssyni í Áshól sem hefur verið harmonikukennari skólans um langt árabil og á allan heiður af þessu starfi en Eyrún er einmitt nemandi hans. Einnig er gaman að geta þess að Tónlistarskólinn og Harmonikufélagið eru í góðu samstarfi og félagið hefur m.a. lagt skólanum til harmonikur og veitt skólanum allan þann stuðning sem félaginu er unnt. Í Tónlistarskóla Árnesinga er einn nemandi í harmonikuleik sem stendur, þannig að við Sunnlendingar getum verið ánægð með það starf sem unnið er á þessum vettvangi hér austanfjalls.
Einnig má geta þess að undanfarin ár hafa þessi tvö félög staðið fyrir útihátíð á Borg í Grímsnesi í byrjun júní og í ár er hátíðin fyrirhuguð helgina 7.–9. júní. Einnig er stefnt að tónleikum í Hvoli Hvolsvelli föstudaginn 31. maí kl. 20:30 og eru það formleg lok vetrarstarfsins að þessu sinni og ekki er víst að allir sem mæta í Hvolinn geti setið kyrrir í sætum sínum það kvöldið.