Þann 13. apríl sl. var 91. ársfundur Sambands sunnlenskra kvenna haldinn að Brautarholti í Skeiða- og Gnúpverjahrepp í umsjón Kvf. Skeiðahrepps. Fundurinn var vel sóttur af kvenfélagskonum úr Árnes- og Rangárvallasýslu. Fundardagurinn hófst með helgistund í Ólafsvallakirkju, sem séra Óskar Hafsteinn Óskarsson annaðist. Að henni lokinni var haldið að Brautarholti og gengið til hefðbundinna aðalfundarstarfa.
Í upphafi fundar minntist Elinborg Sigurðardóttir Helgu Haraldsdóttur, varastjórnarkonu í SSK, sem lést í hörmulegu bílslysi í maí á síðasta ári. Kveikti var á kerti í minningu hennar og annarra mætra kvenfélagskvenna sem létust á liðnu ári.
Í ársskýrslu formanns, Elinborgar Sigurðardóttur, kom fram að starfsemi SSK hafi borið með sér andblæ 90 ára afmælis sambandsins. Efnt var til Hollandsferðar til móts við félagsskap sem kallar sig Nútímakonur og hafa tvisvar heimsótt SSK. Um 50 kvenfélagskonur tóku þátt í ferðinni, sem var einstaklega vel heppnuð. Á stofndegi SSK, 30. September, var efnt til afmælisfagnaðar í Haukadalsskógi og að Hótel Geysi. Á annað hundrað konur fögnuðu þessum tímamótum saman. Fjölmennt Landsþing Kvenfélagasambands Íslands var haldið á Húsavík í október og sóttu rúmlega 20 konur innan SSK þingið en alls voru þar saman komnar um 200 konur alls staðar að af landinu. Á 90 ára afmælisárinu sýndi Dagskráin kvenfélögunum þá velvild að taka reglulega til birtingar fréttir frá kvenfélögum. Mörg félög tóku þátt í þessu verkefni sem ætlað var að auka sýnileika kvenfélaganna og vekja athygli á því góða starfi sem þau standa fyrir.
Veglegt Ársrit SSK, sem gefið er út á hverju ári og dreift til allra kvenfélagskvenna innan SSK, hefur að geyma frásagnir af starfsemi kvenfélaganna innan SSK, ásamt upplýsingum um rekstur sambandsins og fjölbreytt efni bæði til fróðleiks og skemmtunar.
Á ársfundinum stýrði Ingrid Kuhlman markþjálfi hópavinnu þar sem gildi kvenfélaganna voru skilgreind. Unnið var í tíu hópum með hugtökin Samvinna, Virðing og Kærleikur. Virk þátttaka var í hópunum og mörg góð slagorð og greiningar kynntar, bæði í bundnu og óbundnu máli.
Nú eru 25 kvenfélög innan SSK með samtals 923 félagskonur. Tekið hefur verið upp nýtt rafrænt skýrsluform hjá KÍ, sem reyndist mjög vel við skil ársskýrslna. Sjálfboðin vinna kvenfélagskvenna við fjáraflanir og önnur samfélagsverkefni er varlega áætluð um 15.000 klukkustundir á s.l. ári eða 1870 dagsverk. Kvenfélögin gáfu á liðnu ári um 22 milljónir til verkefna á sviði heilbrigðis-, öldrunar-, menningar- og menntamála á sínum félagssvæðum.
Sjúkrahússjóður SSK afhenti Fæðingadeild HSU þrjú tæki á liðnu ári; sírita (monitor) glaðloftstæki og POX hjartsláttarrita. Verðmæti þessara tækja er um 3,4 milljónir króna og er afrakstur af sölu kvenfélaganna innan SSK á kærleiksenglum og kortum. Á ársfundinum var samþykkt að gefa til HSU allt að sjö lífsmarkamæla á þessu ári.
Á fundinum var tilkynnt um val á Kvenfélagskonu ársins 2018. Stjórnir kvenfélaganna velja konur úr sínum félögum til þessarar viðurkenningar. Elinborg Sigurðardóttir lýsti valinu og fór yfir glæsilegan feril Sigrúnar Ásgeirsdóttur sem félagskonu í Kvenfélagi Selfoss. Sigrún hlaut þessa viðurkenningu og fékk innrammað heiðursskjal því til staðfestingar ásamt áletruðu kökukefli, sem er farandgripur.
Starf kvenfélaganna er öflugt og þau eru mikilvæg stoð samfélagsins. Kvenfélagskonur leggja mikið af mörkum með sjálfboðnu starfi til að svo megi verða. Það er gefandi að styðja við góð og uppbyggileg mál í þágu samfélagsins.
Að fundi loknum var fundarkonum boðið í heimsókn að Gunnbjarnarholti þar sem hjónin Berglind Bjarnadóttir og Arnar Bjarni Eiríksson reka fyrirtækið Landstólpa og stórbú. Berglind tók á móti hópnum og bauð upp á veitingar. Hún sagði frá þróun, uppbyggingu og starfsemi fyrirtækis þeirra allt frá því að þau hófu sveitabúskap með nokkrar kýr. Sannarlega glæsilegt fyrirtæki og rekstur.
Sveitastjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps bauð að lokum upp á veislukvöldverð, þar sem Björgvin Skafti Bjarnason oddviti ávarpaði samkomuna og ung stúlka lék listavel á píanó.
Stjórn SSK.