-7 C
Selfoss

Nærumhverfið í Rangárþingi eystra fegrað

Vinsælast

Nú er sumarið komið, alla vega samkvæmt dagatalinu. Þetta má vel merkja hjá íbúum í Rangárþingi eystra og fleiri og fleiri sjást á vappi í görðunum sínum í vorverkunum. Vorverkin í dreifbýlinu eru líka margvísleg, stór og smá og mikið líf og fjör að hefjast hjá bændum.

Í frétt inná heimasíu Rangárþings eystra segir að mjög mikilvægt sé að íbúar og aðrir sem eiga fyrirtæki og eignir í Rangárþingi, s.s. sumarbústaði, standi saman í því að halda umhverfinu í sveitarfélaginu hreinu. Margt smátt geri eitt stórt og um leið og fólk er orðið meðvitað um að hvert einstakt verk í hreinsun nærumhverfisins gerir mikið gagn þá verður verkið auðvelt og jafnvel bara skemmtilegt.

Ungmennafélagið Trausti undir Eyjafjöllum boðaði til hreinsunar meðfram þjóðveginum og öðrum hreppsvegum í sinni sveit í byrjun apríl og eiga þau stórt hrós skilið fyrir að vera okkur hinum svona góð fyrirmynd, segir á heimasíðunni. Hugmyndin er frábær og eftir góða hreinsunarferð var safnast saman að Skálakoti. Hreinsunardag sem þennan ættu öll félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki að setja á sína dagskrá. Eiga saman góðan tíma og láta gott af sér leiða fyrir umhverfið á sama tíma.

Rétt er að minna svo sérstaklega á að ganga vel frá öllum sorpílátum, sérstaklega þegar von er á vindi, því það hefur borið við að eftir vindasama daga hefur mikið af rusli fokið úr tunnum í þéttbýlinu. Frekar leiðinlegt er að sjá pappa og plast hangandi í trjám og runnum út um víðan völl.

Nýjar fréttir