3.4 C
Selfoss
Home Fréttir Frímúrarareglan fagnar 100 ára afmæli reglustarfs á Íslandi

Frímúrarareglan fagnar 100 ára afmæli reglustarfs á Íslandi

0
Frímúrarareglan fagnar 100 ára afmæli reglustarfs á Íslandi
Óskar G. Jónsson, nýkjörinn Stólmeistari frímúrarareglunnar Röðuls á Selfossi.

„Laugardaginn 27. apríl ætlum við Frímúrarar í Röðli að vera með opið hús, þar sem við segjum lítið eitt frá starfinu, sýnum gestum myndband um Frímúrarastarfið, myndir af sögunni og breytingum sem hafa orðið á húsnæði stúkunnar í gegnum tíðina, flutt verður tónlist og boðið upp á léttar veitingar,“ segir Óskar G. Jónsson nýkjörinn Stólmeistari frímúrarastúkunnar Röðuls á Selfossi en tilefnið er 100 ára afmæli reglustarfs Frímúrarareglunnar á Íslandi.

Óskar segir svo frá upphafi stúkustarfs á Suðurlandi: „Það var hinn 6. nóvember 1976 að Bræðrafélag frímúrara var stofnað á Selfossi og voru stofnfélagar 18. Bræðrafélagið var stofnað undir handleiðslu stúkunnar Eddu sem fagnar 100 ára afmæli þessa dagana. Upphaf stúkustarfs á Suðurlandi má rekja allt til ársins 1954 er Bjarni V. Guðmundsson var skipaður héraðslæknir á Selfossi. Hann var félagi í Eddu og það var einkum vegna áhrifa hans að menn fóru að keyra suður á fundi. Það þótti þó frekar erfitt til lengdar og í framhaldinu var bræðrafélagið stofnað. Hornsteinn var lagður að húsakynnum frímúrara á Suðurlandi þann 5. desember 1981 að ævafornum sið, salarkynnin vígð og stofnuð Fræðslustúkan Röðull.“

Hinn 3. desember 1983 var St. Jóhannesarstúkan Röðull stofnuð og voru stofnfélagar 45 að tölu. Í dag eru 165 starfandi bræður í stúkunni, bræður af öllu Suðurlandi, úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Frímúrareglan er mannræktarfélag byggt á kristilegum grunni og felur í sér einstakt tækifæri til vaxtar og þroska, eflir vináttu, virðingu og styðst við aldargamlar hefðir. Eftir inngöngu í regluna geta bræður sótt fundi um land allt, hver á sínu stigi en stigin eru 11 í sænska kerfinu sem við vinnum eftir. Óskari finnst alltaf jafn gaman og eftirvæntingarfullt að klæðast kjólfötunum, sem eru einkennisfatnaður frímúrara, seinnipart á miðvikudögum en miðvikudagar eru fundardagar í Röðli.

„Um mig fer undraverð sælutilfinning og eftirvænting að hitta bræðurna og taka síðan tveggja tíma fund. Enginn sími, sjónvarp, app eða utanaðkomandi truflun, ólýsanlega hugljúf og þægileg tilfinning. Undanfarin ár höfum við tekið inn fimm til sjö félaga á ári hverju, oftast er flutt fræðsluerindi á fundum, tónlist og hugleiðingar um lífið og tilveruna,“ segir Óskar að lokum.