Dagana 23.–27. apríl verða umhverfis- og menningardagar haldnir í Mýrdalshreppi. Yfirskrift daganna er Vor í Vík. Helstu áherslur þessara daga eru að fá fólk til að huga að umhverfinu, stunda hreyfingu og útivist og fjölga samverustundum íbúa sveitarfélagsins.
Markmiðið er að efla fræðslu, snyrta umhverfið og eiga skemmtilegar samverustundir með fjölskyldu, vinum og nágrönnum. Fyrirtæki og íbúar eru sérstaklega hvattir til að taka þátt í verkefninu.
Menningarnefnd og umhverfismálanefnd Mýrdalshrepps standa að þessum dögum ásamt sveitarfélaginu, ýmsum félagasamtökum og velunnurum.