5 C
Selfoss

Blómlegt félagsstarf eldri borgara á Selfossi

Vinsælast

Undirrituð tók við formennsku í Félagi eldri borgara Selfossi í febrúar sl. Ég tók við góðu búi af fráfarandi formanni Sigríði (Sirrý) Guðmundsdóttur sem gengt hafði formannsstarfinu síðastliðin sex ár. Með mér í stjórninni er úrvals fólk sem ég hlakka til að vinna með. Það má segja að Sirrý hafi hætt einu ári of snemma því nú er félagið að taka í notkun nýtt húsnæði sem hún, og sjálfsagt fleiri, var búin að berjast fyrir lengi. Um er að ræða tvo samliggjandi sali þannig að nú er orðið miklu rýmra um félagsmenn og allir eiga að geta fengið sæti þegar eitthvað er um að vera þar. Félagsmenn eru nú rúmlega 600 en mættu vera fleiri miðað við íbúafjölda. Aldurstakmark í félagið er 60+.

Mikil og góð starfsemi fer fram í félagsmiðstöðinni í Grænumörk 5. Þar eru hefðbundnir handavinnuklúbbar, tiffany glerlistarklúbbar, listmálun, tálgað í tré og útskurður. Sumardaginn fyrsta verður opnuð handverkssýning þar sem verða til sýnis hlutir sem unnir hafa verið af félögum í þessum klúbbum.

Í hverri viku er spilað á spil, félagsvist, bridge að ógleymdum snókernum. Línudans og sumba er líka í boði og væri gaman að sjá fleiri taka þátt því nú er nóg rými.

Starfræktir eru tveir bókmenntaklúbbar. Í öðrum þeirra eru fornritin krufin til mergjar og í hinum eru lesin öndvegisrit. Fornbókaklúbburinn fer í sína árlegu vorferð og þá er farið á slóðir þeirrar Íslendingasögu sem lesin er þann veturinn. Öndvegisklúbbur fer í dagsferð og er reynt að fara á staði sem koma við sögu í þeim bókum sem teknar eru fyrir þann veturinn. Í vor liggja leiðir bókmenntanna annars vegar í Húnavatnssýslu á slóðir Vatnsdælasögu og hins vegar á Suðurnes í fótspor Jóns Kalmanns í bókunum „Fiskarnir hafa enga fætur“ og „Eitthvað á stærð við alheiminn“. Ég nefni þetta hér ef það skyldi örva einhverja til að taka þátt í þessum klúbbum á næsta starfsári.

Með auknu húsnæði gefst tækifæri til fjölbreyttara félagsstarfs. Nú er verið að skoða möguleika á að vera með leir- og glerlist, silfursmíði og einnig hefur námskeið í eldamennsku verið nefnt. Svona mætti lengi telja. En allt veltur þetta á áhuga og þátttöku ykkar kæru eldri borgarar.

Mjög mikilvægt er að við eldri borgarar höldum áfram að hreyfa okkur eftir að starfsæfinni lýkur. Þá er upplagt að fara út að ganga. Tveir gönguhópar eru í Grænumörk 5. Með öðrum þeirra fylgir ávallt bíll í boði G. Tyrfingssonar og geta lúnir göngugarpar sest í bílinn ef einhver er orðinn þreyttur. Ekið er eitthvað út fyrir bæinn og valdar leiðir þar sem lítil umferð er. Hinn hópurinn gengur innanbæjar á einhverjum af þessum frábæru göngustígum sem liggja um allan bæinn. Munið að maður er manns gaman.

Ferðanefndin skipuleggur 4–5 ferðir í sumar. Þá ætlum við að skoða Suðurlandið því það er eins og Kjarvalsmálverk, alltaf eitthvað nýtt að sjá.

Kór eldri borgara, Hörpukórinn, sem er undir stjórn Guðmundar Eiríkssonar, hefur verið duglegur að heimsækja dvalar- og hjúkrunarheimili og syngja fyrir heimilismenn og starfsfólk og kunna allir vel að meta slíkar heimsóknir. Á síðasta ári fór kórinn í tónleikaferð og á kóramót á Írlandi sem tókst vel í alla staði.

Nónsöngur er kl. 16:16 í Grænumörk. Þá kemur fólk saman einu sinni í viku. Ingi Heiðmar Jónsson stýrir og syngur hver með sínu nefi. Þetta er góð æfing fyrir raddböndin því þau vilja ryðga ef ekki eru notuð til söngs reglulega. Kannski einhver hafi áhuga á að syngja bítlalögin, hver veit?

Hluti af nýja salnum var hugsaður sem íþróttasalur. Þar er verið að skoða möguleika á að leika boccia. Einnig qigong, jóga og stólaleikfimi sem væri auðvelt að koma fyrir. Hægt væri að vera með létt lóð, dýnur og teygjur því fjölbreytnin skiptir mjög miklu máli.

Í haust er ætlunin að halda svokallaðan „þjóðfund“ í Grænumörk 5, Mörkinni, þar sem fólk getur komið og rætt hugmyndir sínar. Hver eru ykkar áhugamál og gætu þau rúmast innan þessa félagsskapar?

Samþykkt hefur verið af bæjarstjórn Árborgar að sveitarfélagið verði heilsueflandi bær. Óskað hefur verið eftir að eldri borgarar leggi fyrir bæjaryfirvöld óskalista eða stefnuskrá svo hægt verði að forgangsraða verkefnum.

Það sem er næst á döfinni er handverkssýningin sem opnar Sumardaginn fyrsta og verður opin 25.–28. apríl, fimmtudag til sunnudags kl. 13:00–16:00. Kaffi og nýbakaðar vöfflur verða í boði á sanngjörnu verði. Óvæntar uppákomur verða flesta dagana um kl. 14:30. Við bjóðum alla velkomna á sýninguna og um leið að skoða nýja húsnæðið okkar.

Gleðilegt sumar.

Guðfinna Ólafsdótti, formaður Félags eldri borgara Selfossi

Nýjar fréttir