-6.6 C
Selfoss
Home Fréttir Þjóðleg uppskrift frá vesturströnd Noregs

Þjóðleg uppskrift frá vesturströnd Noregs

0
Þjóðleg uppskrift frá vesturströnd Noregs
Haukur Grönli.

Sunnlenski matgæðingurinn er Haukur Grönli. Ég vil byrja á að þakka Lárusi fyrir að skora á mig og fylla upp í dauða tímann minn. Ég hef mjög gaman af að elda mat og finnst slökun í að setja á góða tónlist og dunda í eldhúsinu. Ég hef alltaf átt erfitt með að fara eftir uppskriftum, meira að segja tekist að klúðra Betty Crocker uppskrift. Ég nota uppskriftir í mesta lagi til að fá hugmynd að rétt. Oftast tek ég það sem er til í ísskápnum og geri eitthvað úr því.

Að sjálfsögðu þykir mér ekki leiðinlegt að grilla þegar veður leyfir og þá er kryddlögurinn aðal málið.

Þar sem ég er norskur í aðra ættina (þaðan kemur Grönli nafnið) og við Íslendingar borðum mikið af lambakjöti, datt mér í hug að henda fram þjóðlegri uppskrift frá vesturstönd Noregs. Á máli frumbyggja nefnist þessi réttur får i kål eða lamb í káli. Þetta bragðast mun betur en uppskriftin lítur út fyrir og ég skora á ykkur að prófa. Með þessu er svo gott að drekka ískalda nýmjólk eða einhvern mjöð.

Þar sem ég var að koma úr þriggja rétta stórkostlegri veislu hjá Ingvari P. Guðbjörnssyni vini mínum, upplýsingastjóra Sjálfstæðisflokksins, tel ég vera gráupplagt að skora á hann.

Uppskrift
3 dl vatn
1,5 kg hvítkál
1,5 kg súpukjöt, ekki of magurt
4 teskeiðar heil piparkorn
Tvær teskeiðar gróft salt
Hálfur ferskur chili. Muna að hreinsa fræin
Hvítlaukur, tvö til þrjú rif

Aðferð
Deila kálinu upp í báta, raða kjöti og káli til skiptis í pottinn. Byrja á að setja eitt lag af kjöti með fituna niður og svo kál, þannig skal haldið áfram koll af kolli þar til kjötið er búið eða potturinn fullur. Stráið salti og piparkornum á milli laga. Hellið yfir vatni. Þegar suðu er náð setjið þá lok á pottinn og lækkið hitann. Rétturinn á ekki að sjóða heldur malla á lágum hita þar til kjötið dettur af beinunum, ca 2,5 klst. Mér finnst gott að poppa uppskriftina með því að bæta chilli og hvítlauki við, ekki nauðsynlegt.

Borið fram með soðnum kartöflum.