-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir Hár blóðþrýstingur

Hár blóðþrýstingur

0
Hár blóðþrýstingur
Herdís Sif Ásmundsdóttir.

Háþrýstingur er oft einkennalaus en fólk getur verið með hann árum saman án þess að vita af því. Ástandið getur þó verið alvarlegt og koma einkenni jafnvel ekki fram fyrr en háþrýstingurinn er farinn að valda skaða á líffærum. Helstu einkenni geta verið sjóntruflanir, höfuðverkur (helst á morgnana) og mæði. Hár blóðþrýstingur eykur líkur á hjartaáföllum, heilablóðföllum sem og nýrnasjúkdómum.

Viðmið fyrir blóðþrýsting:

Í flestum tilfellum eru orsakir háþrýstings óþekktar en talið er að þær séu samspil erfða og umhverfis. Kaffi, áfengi, reykingar, streita auk skorts á hreyfingu geta haft neikvæð áhrif. Mögulegt er að hafa góð áhrif á blóðþrýstinginn með því að létta sig (ef þarf), neyta hollrar fæðu (m.a. grænmetis og ávaxta í ríkulegu magni), minnka saltneyslu, stunda hreyfingu í að minnsta kosti 30 mín á dag flesta daga og minnka áfengisdrykkju. Gott er að eiga blóðþrýstingsmæli til að fylgjast reglulega með þrýstingnum heimavið, alltaf skal mæla á svipuðum tíma dags og skrá mælingar niður. Áður en byrjað er að mæla er best að setjast niður og hvíla sig í að lágmarki 5 mínútur og passa að það séu að minnsta kosti 30 mínútur liðnar frá síðustu máltíð, æfingu, baði, reykingum eða neyslu áfengis. Ef læknir hefur ávísað blóðþrýstingslækkandi lyfjum er mikilvægt að taka þau inn reglulega. Ef lyfin valda aukaverkunum er mikilvægt að ræða það við lækni þar sem breyta gæti þurft skammtinum eða skipta um lyf. Hafðu samband fljótlega við heilsugæsluna ef reglulegar blóðþrýstingsmælingar þínar eru yfir 140/90 en hafðu strax samband ef þær eru í kringum 180/120. Hafðu einnig strax samband ef mælingar eru yfir 140/90 og þú finnur fyrir sjóntruflunum, höfuðverk, ógleði, uppköstum, sljóleika, erfiðleikum með tal eða öndun, verkjum í brjósti, baki eða síðu eða þvag er brúnt.
Sjá nánar inn á www.heilsuvera.is

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Herdís Sif Ásmundsdóttir hjúkrunarfræðingur á heilsugæslustöð Selfoss.