-3.6 C
Selfoss

Nýtt fjölskyldusvið stofnað í Árborg

Vinsælast

Þann 1. mars sl. var stofnað nýtt fjölskyldusvið hjá Sveitarfélaginu Árborg. Bæjarstjórn Árborgar ákvað að gera úttekt á stjórnsýslu og rekstri sveitarfélagsins og fékk Harald Líndal Haraldsson, hagfræðing, í verkið. Eftir mikla vinnu Haraldar, svo sem skoðun gagna og viðtöl og fundi með stjórnendum, skilaði hann viðamikilli skýrslu með fjölmörgum tillögum. Ein af þessum tillögum fjallaði um breytingu á skipuriti og á febrúarfundi bæjarstjórnar var samþykkt að fækka fagsviðum. Það fól m.a. í sér að sameina þrjú fagsvið sem koma að meginþjónustu við íbúa og skóla í eitt fjölskyldusvið og þar undir eru málaflokkarnir skólar, skólaþjónusta, félagsþjónusta og menningar- og frístundamál. Blaðið hafði samband við Þorstein Hjartarson, svisstjóra fjölskyldusviðs, og ræddi við hann um þessar breytingar og hvað þær hefðu í för með sér.

Þorsteinn Hjartarson, svisstjóri fjölskyldusviðs Árborgar.

Aðgengilegri þjónusta fyrir íbúa
Fjölskyldusvið hefur með höndum verkefni í málaflokkum sem snúa að fjölskyldunni. Sviðinu er ætlað að veita íbúum heildstæða þjónustu með velferð þeirra að leiðarljósi. Markmiðin eru skýr þegar við spyrjum Þorstein hvernig hann hyggst koma til móts við notendur þjónustunnar. „Það er ákaflega mikilvægt að eiga gott samstarf við notendur þjónustunnar og leitast við að afgreiða mál svo fljótt sem auðið er. Breytingun er m.a. liður í því að gera þjónustuna aðgengilegri fyrir íbúana og auka gæði hennar. Með þessum breytingum viljum við efla almenna upplýsingagjöf, ráðgjöf og stuðning við íbúa á öllum aldri. Lögð er áhersla á forvarnir, snemmtæka íhlutun, þróunarstarf og samþætta nærþjónustu,“ segir Þorsteinn.

Þjónustan þróuð út frá þörfum notenda
Starfsfólk fjölskyldusviðs leitast við að vinna í þeim anda að grípa sem fyrst inn í mál barna þar sem eitthvað bjátar á. Þú nefnir snemmtæka íhlutun og samþætta nærþjónustu meðal annars. Hvað þýðir það? „Hugtakið vísar til þess að eitthvað gerist snemma á lífsleiðinni og það höfðar til aðgerða eða inngripa af einhverju tagi. Snemmtæk íhlutun vísar því til aðgerða sem eiga sér stað snemma í lífi barns sem hefur jákvæð áhrif á samskipti, þroska þess og líðan. Við höfum leitast við að vinna í þessum anda en enn eru mörg sóknarfæri. Samþætt nærþjónusta ætti að auðvelda okkur þá vinnu en þá er alltaf leitast við að þróa þjónustuna út frá þörfum notenda og rannsóknir hafa m.a. sýnt að markvisst og gott samstarf ólíkra fagaðila skiptir þar sköpum. Margir þurfa að koma að þróun nærþjónustunnar og skapa breiða sátt um hana,“ segir Þorsteinn.

Árangur næst ef liðsheildin er sterk
Nú er verið að sameina ýmis svið og í raun skapa nýja heild. Slíkar breytingar hljóta að hafa ýmsar áskoranir í för með sér eins og tækifæri. Hvernig tekst þú á við þær? „Sviðsstjóri veitir faglega forystu og þarf að kynna sér vel þá fjölþættu starfsemi sem fram fer á fagsviðinu og hlusta vel eftir ábendingum frá starfsfólki, stjórnendum og íbúum sveitarfélagsins. Þetta mun ég leggja sérstaka áherslu á næstu vikurnar. Mikilvægt er að vinna sem mest í fag- og verkefnateymum enda er það í anda árangursríkra stjórnunar¬aðferða. Það er ekki vænlegt til árangurs að ætla eingöngu stjórnendum að koma með allar lausnir. Í stjórnendastörfum mínum hef ég m.a. sótt fyrirmyndir til íþróttanna en eins og allir vita næst einungis árangur ef liðsheildin er sterk og þá er góður þjálfari hluti af liðsheildinni. Sviðsstjóri hefur yfirumsjón með áætlanagerð, stefnumótun og samhæfingu innan fagsviðsins. Sviðsstjóri fjölskyldusviðs er næsti yfirmaður fjögurra deildarstjóra og skóla¬stjóra leik- og grunnskóla,“ segir þorsteinn.

Næsta skref að leggja mikla áherslu á þverfaglega teymisvinnu
Ef ég spyr þig að lokum, hvað er framundan? „Nú erum við að vinna að gagnkvæmri upplýsingamiðlun og kynningum. Ég er til dæmis aðeins byrjaður á því að heimsækja aðrar stofnanir en skóla enda þekki ég þá hvað best fyrir. Við þurfum að treysta tengslin og samstarfið þvert á fagdeildir fjölskyldusviðs og byggja upp kröftuga samstarfsmenningu þar sem þarfir íbúanna eiga alltaf að vera í forgrunni. Við munum m.a. leggja mikla áherslu á þverfaglega teymisvinnu um mikilvæg verkefni og móta skýra sýn þar sem margir þurfa að koma að borðinu. Auðvitað tekur þetta allt sinn tíma. Ef við vinnum að þessum breytingum út frá gildunum jákvæðni, samstarfsvilji, þolinmæði, seigla og traust munu íbúar fyrr en seinna sjá að þessi breyting á skipuriti Árborgar hefur verið skref í rétta átt, segir Þorsteinn að lokum.“

Nýjar fréttir