-6 C
Selfoss

Tóna- og kvæðabrú frá Hveragerði að Eyrarbakka um páskana

Vinsælast

„Við segjum gjarnan að þegar himinbirtan tekur að lýsa upp auðlindir jarðar og fuglarnir taka að leika undir með kvaki og krunki sé tími kominn fyrir „Fuglatónleika“. Þetta er fimmta vorið sem við höldum Fuglatónleika sem hafa alltaf verið vel sóttir af fólki á öllum aldri og fólki sem kemur víða að þótt íbúar hér á Suðurlandi séu farnir að líta á tónleikana sem árvissan viðburð og sýni sig aftur og aftur,“ segir Ásta Kristrún í Bakkastofu á Eyrarbakka, þegar hún er spurð hvort þau hjón hafi ekki haldið Fuglatónleika á vorin til langs tíma.

„Okkur finnst fuglar parast fallega saman við páskahátíðina enda stutt í hreiðurgerð þeirra með eggjum og tilheyrandi tengingum. Páskaungarnir á súkkulaðieggjunum eru nærtækt dæmi um þessa skörun,“ segir Ásta.

Hingað til hafa tónleikarnir alltaf verið á Eyrarbakka en nú vildu þau hjónin freista þess að búa til brúna frá Hveragerði að Eyrarbakka. Tónskáldið og flytjandi laganna Valgeir býr á Eyrarbakka en ljóðskáldið Jóhannes úr Kötlum sem samdi öll þessi fallegu fuglakvæði bjó lengi vel í Hveragerði. Nú býr sonur Jóhannesar Svanur Jóhannesson, nær níræður að aldri, í Hveragerði og er „eins konar sendiherra föður síns“, segir Ásta. Þá er Fuglabrúin samstarfsverkefni menningarsviða Hveragerðisbæjar og Áborgar sem hún segir að þau séu fjarska glöð með.

Þau hjón spyrja nokkuð frumlegrar spurningar: „Eru fuglar líka fólk?“ og að „Fuglar hugsi sitt.“ Hvað fær þau til þess?

„Jú, ljóð Jóhannesar eru svo einstök hvað efnistök og boðskap varðar og náttúran var skáldinu svo hugleikin. Ljóðin bera sterkt vitni um innsæi hans og samkennd með fuglum og smádýrum. Hann persónugerir fuglana alveg snilldarlega og við viljum nýta hans leið áfram og vekja bæði áheyrendur og okkur til umhugsunar um mikilvægi þess að virða og meta náttúruna eins og okkar nákomnustu vini og ættingja.

Stelkur.

Við erum að vinna að gerð bókamerkis sem tónleikagestir fá með þessu umhugsunarefni og nýtum styrk Uppbygginarsjóðs Suðurlands til að framleiða það,“ segir Ásta.

Ásta segir að lokum að það sé hennar trú og tilfinning að það að lifa sig inn í og samasama sig með lífsskilyrðum og tilfinningum fugla og dýra hafi ótvíræð jákvæð áhrif. Samkennd sé mikilvæg í þroska- og félagsfærni barna á öllum aldri og styðji við ábyrgðarkennd og virðingu fyrir fólki og umhverfinu. Þegar allt er lagt saman þ.e. að njóta tónlistarinnar, kvæðanna og frásagna megi segja að Fuglatónleikarnir séu óður til náttúrunar.

Fuglatónleikarnir verða í Hveragerði á skúrdag, fimmtudaginn 18. apríl kl. 16:00, í Listasafni Árnesinga. Svo verður brúin tengd við Eyrarbakka laugardaginn fyrir páska, þann 20. apríl kl. 17 í Eyrarbakkakirkju. Aðgangseyrir er 1.500 kr. en frítt er fyrir börn. Allir eru velkomnir.

Nýjar fréttir