3.9 C
Selfoss

Orgelið hefur hljómað inni í íbúðarhúsi í meira en 40 ár

Vinsælast

Laugardaginn 6. apríl sl. voru tóleikar í safninu Tré og list sem staðsett er í Forsæti í Flóahreppi. Tilefnið var að búið er að færa gamla orgel Landakirkju, sem Ólafur Sigurjónsson bjargaði úr Vestmannaeyjum eftir gos, út í nýja viðbyggingu safnsins. Viðbyggingin hefur fengið nafnið Orgelstofa.

„Orgelið hefur fengið að hljóma inni í íbúðarhúsi í meira en 40 ár og tími til kominn að færa það og fá nýtt hlutverk,“ segir Ólafur. Ólafur var stjórnandi Karlakórs Selfoss á árunum 1990–2000 og því var vel við hæfi að hann hæfi tónleikana sem stjórnandi kórsins. Kórinn flutti undir hans stjórn lagið Þú Árnesþing ég elska nafnið þitt. Jón Bjarnason, dómorganisti í Skálholti og núverandi stjórnandi kórsins spilaði undir á orgelið. Þá tók Glúmur Gylfason við keflinu og spilaði skemmtilegt efni. Þá söng Karlakórinn aftur og endaði á laginu Flóinn eftir Pálmar Þ. Eyjólfsson og Freystein Gunnarsson.

„Það voru tvö óskalög á dagskránni sem Jón Bjarnason lék. Það er Ave Maria eftir Schubert og svo hið stórbrotna verk í es dúr prelódíu eftir J. S. Bach. Það var leikið í minningu fyrsta kennara míns Guðmundar Gilssonar organista á Selfossi og fyrsta stjórnanda Karlakórs Selfoss. Að síðustu voru kennarar mínir þeir Glúmur Gylfason, Jónas Ingimundarson og Haukur Guðlaugsson heiðraðir. Við hjónin þökkum öllum sem komu að tónleikunum einlæglega. Við buðum vinum og kunningjum til þessara tónleika sem heppnuðust einstaklega vel,“ segir Ólafur að lokum.

Nýjar fréttir