2.8 C
Selfoss
Home Fréttir Mismunandi endurómun í Listasafni Árnesinga

Mismunandi endurómun í Listasafni Árnesinga

0
Mismunandi endurómun í Listasafni Árnesinga
Sigrún Ólafsdóttir.

Næsta sýning í Listasafni Árnesinga er Mismunandi endurómun, sýning á verkum sex listamanna sem allir búa og starfa í Þýskalandi. Einn þeirra er íslendingurinn Sigrún Ólafsdóttir frá Selfossi, Elly Valk-Verheijen sem er Hollendingur og Þjóðverjarnir Annette Wesseling, Ekkehard Neumann, Friedhelm Falke og Nikola Dimitrov. Sýning með sama heiti hefur verið sett upp í söfnum og galleríum í nokkrum löndum Evrópu og nú verður hún sett upp í Listasafni Árnesinga. Lykilstefið í sýningunni er að ná fram gagnvirkum endurómi verkanna á milli og láta þau kallast á við ólíka sýningarstaði. Ekki er um eiginlega farandsýningu að ræða því verkin á hverja sýningu eru valin með tilliti til misstórra sýningarstaða og í samráði við sýningarstjóra þeirra. Sýningarstjóri sýningarinnar í Listasafni Árnesinga er Inga Jónsdóttir.

Stærð og umfang verkanna er mjög mismunandi, efniviðurinn margvíslegur og viðfangsefnið ólíkt, en sýningin snýst um það að ná jafnvægi milli þessara andstæðna. Verk listamannanna sýna að myndlist er rannsóknarvinna sem byggist á forvitni, tilraunum, framkvæmd og endurtekningu. Fjölbreytileikinn felst í hugmyndalegri útfærslu verkanna sem eru unnin með blandaðri tækni, ýmist ný eða eldri, skúlptúrar, málverk, textíll og innsetningar af ýmsum toga. Heyra má og sjá samhljóm og enduróm sem spannar víðan skala lífræns flæðis andspænis agaðri formfestu, mýkt gegnt hörku, kyrrð mót ágengni, léttleika andspænis þyngd svo eitthvað sé tilgreint. Saman kallast verkin á og ná að magna hvert annað svo áhorfendur hafa margt að skynja og geta fundið ríkulega endurgjöf og samtal, gefið, tengt og þegið ef þeir leggja sig eftir því.

Sýningin, sem er m.a. styrkt af Uppbyggingasjóði Suðurlands, mun standa til og með 2. júní 2019. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir – líka á opnun sýningarinnar.