3.9 C
Selfoss

Mikil eftirspurn eftir húnæði í Rangárþingi ytra

Vinsælast

Í nýrri húsnæðisáætlun Rangárþings ytra 2019 kemur fram að mikil eftirspurn hefur verið eftir íbúðum í Rangárþingi ytra. Þar segir einnig að skortur hafi verið á litlum og ódýrari íbúðum fyrir barnafólk og fyrir eldra fólk sem vill minnka við sig. Einnig hefur borið á skorti á íbúðum fyrir fjölmarga starfsmenn hinna ýmsu fyrirtækja sem starfrækt eru í sveitarfélaginu og þá sérstaklega litið til Hellu og nágrennis í því sambandi.

Gríðarleg uppbygging í formi ferðaþjónustu hefur verið í sveitarfélaginu og liggur fyrir að sveitarfélagið þarf að bregðast við með aðkomu sinni í að byggðar verði nýjar íbúðir þar sem lítið sem ekkert er til af lausum íbúðum í dag. Framboð á húsnæði hefur verið af skornum skammti á Hellu, þar sem umrædd uppbygging á starfsemi hefur farið fram úr þeim áætlunum sem fyrir liggja. Er sveitarfélagið Rangárþing ytra ekki eitt um þá stöðu þar sem svipaðar aðstæður eru og hafa verið að skapast víðast hvar á landinu.

Hafnar eru framkvæmdir við byggingu á u.þ.b. 50 íbúðum í sveitarfélaginu. Þar af eru um 30 íbúðir í þéttbýlinu Hellu. Ástæða slíkrar uppbyggingar má rekja til langvarandi skorts á íbúðum, lágs lóðarverðs þar sem eingöngu er innheimt gatnagerðargjald og lóðarleiga, en ekki seldur byggingarréttur eins og tíðkast hefur á höfðuborgarsvæðinu og jafnframt samþykkti sveitarstjórn að selja 8 íbúða fjölbýlishús í eigu sveitarfélagsins. Samhliða sölunni voru gerðir samningar við þrjá mismunandi verktaka um kaup á 6 nýjum íbúðum í stað þeirra sem seldar voru. Þeir samningar gerðu það að verkum að grundvöllur myndaðist hjá verktökum til að sjá fyrir sér möguleika á byggingu fleiri íbúða, bæði til sölu og leigu á almennum markaði. Mikil gróska er einnig í byggingu einkaaðila, bæði á Hellu og utan þéttbýlis.

Verkefnin framundan í húsnæðismálum eru tvíþætt:

  • Huga þarf að leiðum til að koma húsnæðismarkaðnum á Hellu á hreyfingu. Framboð á húsnæði þarf að miðast við eðlilega endurnýjun og tryggja það að húsagerðir svari þörfum allra aldurs- og þjóðfélagshópa.
  • Tryggja þarf að þannig sé staðið að uppbyggingu nýs húsnæðis að staðsetning, stærð og gerð þess falli vel að þörfum íbúa. Heildarframboðið sé líklegt til að henta vel íbúum á öllum aldri og nauðsynlegri þróun samfélagsins. Gæta þarf samræmis við yfirbragð byggðarinnar, nýta vel innviði, huga að gönguhæfi og tryggja að ekki verði offramboð á markaði.

Til að þetta geti orðið að veruleika þarf aðkoma sveitarfélagsins að miðast við að framboð lóða sé nægjanlegt og auk þess að skoða með mögulega aðkomu sveitarfélagsins að húsnæðismarkaði í tengslum við lög um húsnæðismál nr. 44/1998 m.s.br. og þessi húsnæðisáætlun er grundvöllur fyrir. Megininntak greiningarinnar á húsnæðismarkaði, sem leiðbeint getur um tilhögun uppbyggingar, forgangsröðun og aðrar áherslur er:

  • Farið er yfir reynslu annarra sveitarfélaga sem hafa verið í sömu sporum og Rangárþing ytra er nú.
  • Staða húsnæðismarkaðarins er greind og spáð fyrir um íbúafjölgun og þörf á húsnæði.
  • Lagt er mat á hvaða stærðir húsnæðis og íbúðaform henta á Hellu í næsta áfanga uppbyggingar.
  • Reifuð eru helstu atriði sem huga þarf að við þróun byggðar til að tryggja gæði byggðarinnar til framtíðar.
  • Loks er farið yfir möguleg svæði til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis á grunni fyrirliggjandi aðalskipulags, greint hvar eru möguleg svæði til uppbyggingar, farið yfir stöðu deiliskipulags og mögulega áfangaskiptingu varðandi uppbyggingu.

Úr inngangi að húsnæðisáætlun Rangárþings ytra 2018 sem Haraldur Birgir Haraldsson, skipulags- og byggingafulltrúi, tók saman.

 

Nýjar fréttir