2.3 C
Selfoss

Kjarrlendi og beit

Vinsælast

Margir tengja trjágróður við notarlegt umhverfi og skjól. Það er helst í og við þéttari byggð sem við sjáum trjágróður, en margt hefur verið ritað og rætt um ástæður þess.

Hæðardrög og fjöll gefa ákveðið skjól og fjölbreyttara en gengur og gerist á flatlendi, en þar geta líka myndast vindstrengir með fjöllum og eftir dölum.

Á flatlendi er vindafar ögn einsleitara, þ.e. vindur er jafnari og minna um vindstrengi en einnig er þar minna um gott skjól eins og á milli hæðardraga og fjalla.

Snjósöfnun fylgir skjólinu upp að vissu marki. Þegar um stærri kjarri eða skógi vaxið svæði er að ræða, landshluta, heil héruð eða sveitir, þá safnast snjórinn fyrir á jaðarsvæðum og lítill hluti hans fer innar, sem við getum betur nýtt okkur ef við búum á flatlendi.

Víða í Árborg eru svæði þar sem víðigróður hefur tekið sér bólfestu. Það mun hafa gerst vegna þess að þau hafa ekki verið nýtt til beitar. Án sérstakrar umhirðu, getur þessi trjágróður náð 2–4 m hæð. Það er því ekki réttlætanlegt með neinum hætti að nota þessi svæði til beitar, ef einhver áhugi er á því að mynda skjól og aðlaðandi umhverfi.

Þegar takmarkaðir fjármunir eru til að undirbúa framtíðar byggingarland þéttbýlis, er í það minnsta lágmarkið að valda ekki frekari skaða. Væri deiglendið í nokkurra kílómetra radíus í kringum Selfoss, vaxið 2–4 m háu kjarri:

  1. Væri vindur hægari.
  2. Snjósöfnun minni.
  3. Meira skjól.
  4. Upphitunarkostnaður híbýla okkar lægri.
  5. Hitastig í bænum hærra.

Fyrstu aðgerðir til undirbúnings byggingarlands í þéttbýli ættu í öllum tilfellum að vera friðun og skipulag landnotkunar. Því næst er ræktun trjágróðurs góð fjárfesting, sjá 5 atriði hér að ofan.

Mér rennur til rifja að sjá kjarri vaxin svæði nýtt til beitar. Ýmsar aðstæður geta valdið rofi í gróðurþekju, en yfirleitt er augljóst hvort um rof vegna ágangs búfjár er að ræða eða hvort veðurfari er um að kenna. Kjarrgróður hverfur á fáum árum af svæðum sem nýtt eru til beitar, sama hver búfjártegundin er. Runnar og kjarr vaxa ekki á svæðum sem eru nýtt til beitar.

Víða má ganga lengra í að framfylgja áætlunum um nýtingu lands til beitar. Eflaust munu nú þegar liggja fyrir gróðurkort fyrir Árborg og eins afmörkun og notkun beitarhólfa. Þetta tvennt dugar til fyrstu aðgerða varðandi það að lágmarka frekari skaða á kjarr og -graslendi.

Benedikt Björnsson

Nýjar fréttir