3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Ágreiningur um aukaverk

Ágreiningur um aukaverk

0
Ágreiningur um aukaverk
Andri Björgvin Arnþórsson.

Ágreiningur milli verkkaupa og verktaka ratar stundum til dómstóla. Í nokkrum þeim málum snýr ágreiningur aðila um aukaverk, þar sem verktaki krefst endurgjalds fyrir aukið umfang, þ.e. efni og vinnu á verkþáttum sem ekki voru tilgreindir í samningi milli aðila. Á móti kann verkkaupi að hafa uppi gagnkröfu á hendur verktaka til skuldajafnaðar á grundvelli þess að verkskilum hefur seinkað.

Eðli málsins samkvæmt fela aukaverk í sér aukið umfang á verki sem getur orðið til þess að verkáætlun fari úr skorðum og verkskilum seinkar. Þrátt fyrir að verktaki vinni aukaverk sem hefur þau áhrif að verkskilum seinkar um nokkra daga, vikur eða jafnvel mánuði, þá dugar það ekki eitt og sér til þess að verktímanum verði sjálfkrafa framlengt sem því nemur. Því skilyrt er, ef verktaki vill fá lengri verktíma, þá verður hann krefjast þess sérstaklega með tilkynningu og rökstyðja á hvaða grundvelli hann byggir kröfuna, sbr. ákvæði 5.2.2. og 5.2.3 í ÍST 30. Í fyrra ákvæðinu eru taldar upp, í fjórum stafliðum, þær aðstæður sem verktaki getur byggt á til þess að fá lengri verktíma, sbr.; a) ef breytingar hafa orðið á verkinu og þær seinka framkvæmdum, t.d. vegna aukaverka, b) ef verki hefur seinkað vegna atriða sem varðar verkkaupa, t.d. ef seinkun verður á teikningum, efni, tæki eða öðru sem snýr að verkkaupa, c) ef óviðráðanleg atvik koma upp sem ekki má rekja til verktaka, t.d. útaf verkfalli, verkbanni, eða öðrum þáttum sem tálma framkvæmdum, d) ef tíðarfar er sérstaklega óhagstætt miðað við árstíma og að það raski framkvæmdum verulega frá verkáætlun verktaka.

Í samræmi við framangreint borgar það sig fyrir verktaka að krefjast lengri verktíma með rökstuddri tilkynningu jafnóðum og verktíma seinkar, að öðrum kosti getur hann þurft að bera þann kostnað sjálfur. Þetta á sérstaklega við ef ÍST 30 er hluti af samningi aðila.

Andri Björgvin Arnþórsson , lögfræðingur hjá Lögvernd Lögmannsstofu.
www.verktakarettur.is