-1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Ofbeldi er brot gegn mannhelgi

Ofbeldi er brot gegn mannhelgi

0
Ofbeldi er brot gegn mannhelgi

Það skiptir ekki höfuðmáli hverrar tegundar ofbeldið er, afleiðingar þess geta verið alveg þær sömu fyrir þann sem brotið er gegn. Afleiðingarnar fara heldur ekki eftir því hversu „alvarlegt“, langvinnt eða mikið ofbeldið er heldur er það afdrifaríkast að í ofbeldinu felst að brotið er gegn mannhelgi viðkomandi og að traust og persónuleg öryggistilfinning bíður varanlegan skaða. Það eitt og sér skekur allan tilverugrundvöll manneskjunnar. Undirliggjandi er ávallt valdaójafnvægi milli þolenda og gerenda. Þetta er hluti af þeim af ályktunum sem starfsmenn Drekaslóðar hafa dregið eftir að hafa tekið á móti um 2000 þolendum ofbeldis á þeim níu árum sem liðin eru frá stofnun samtakanna.

Thelma Ásdísardóttir.

Í vel sóttum fyrirlestri Thelmu Ásdísardóttur frá Drekaslóð sem haldinn var í FSu á dögunum fjallaði hún um ofbeldi í öllum myndum og áhrif þess á líðan, sjálfsmynd og sjálfsvirðingu og hæfnina til að upplifa nánd á jafningjagrundvelli, þar með talið í kynlífi.

Drekaslóð tekur á móti þolendum ofbeldis af báðum kynjum. Ofbeldið sem skjólstæðingar Drekaslóðar greina frá er kynferðislegt, andlegt og líkamlegt, en einnig í formi eineltis og jafnvel vanrækslu af hendi foreldra í æsku. Hvort sem það er af þessum sökum eða öðrum þá er hlutfall karlmanna meðal skjólstæðinga hátt sé miðað við önnur samtök sem aðstoða þolendur ofbeldis. Um fjórðungur skjólstæðinga eru karlmenn og er hluti þeirra að glíma við afleiðingar ofbeldis af hálfu kvenna, ýmist mæðra sem beitt hafa þá ofbeldi í æsku eða maka í parasambandi. Er þá oft um að ræða andlegt ofbeldi, en einnig eru dæmi um alvarlegt líkamlegt ofbeldi af hálfu kvenkyns maka. Með þessu er komið inn á mjög viðkvæmt svæði, því það getur gengið mjög afdráttarlaust gegn hugmyndum þolandans sjálfs og samfélagsins um karlmennsku og kvenleika að konur geti beitt karlmenn ofbeldi. Thelma lagði í fyrirlestrinum áherslu á að afleiðingar ofbeldisins séu fullkomlega sambærilegar hjá báðum kynjum. Megininntak þess ferlis að ná bata og frelsi á ný sé að endurheimta sitt persónulega vald sem felst m.a. í að geta sett skýr mörk og varið þau.

Ljóst varð af fyrirlestri Thelmu að íslenskt samfélag er enn á þeim stað að rjúfa þöggun um ofbeldi af öllum tegundum óháð kyni gerenda og þolenda og viðurkenna umfang vandans. Það sést til dæmis á því að opinberar fjárveitingar til Drekaslóðar eru af skornum skammti. Fjársveltið ræður því að samtökin hafa einungis yfir þremur föstum starfsmönnum að ráða og biðlisti eftir viðtölum er allt að tveimur árum. Þannig er eftirspurnin enn mun meiri en framboðið á þjónustu, jafnvel þótt meðvitund samfélagsins um nauðsyn hennar hafi tekið stakkaskiptum á liðnum árum.

Fyrirlestur Thelmu Ásdísardóttur var haldinn í boði Soroptimistaklúbbs Suðurlands, sem hefur að markmiði að vinna að hagsmunum stúlkna og kvenna og samfélagsins alls.