-3.1 C
Selfoss

Jákvæðir ársreikningar hjá Sveitarfélaginu Ölusi

Vinsælast

Ársreikningar Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir árið 2018 hafa nú verið birtir. Rekstrartekjur samstæðu Ölfuss námu 2.539 m.kr. og rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði námu 2.036 m.kr. Rekstrarafkoma samstæðu fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 503,3 m.kr. og rekstrarniðurstaða ársins eftir afskriftir og fjármagnsliði jákvæð um 242,7 m.kr.

Elliði Vignisson. Mynd: ÖG.

Ánægjulegt er að skatttekjur án framlaga úr jöfnunarsjóði hækka úr 1.340 m.kr. í 1.458 m.kr. eða um 8%. Í heildina vaxa rekstrartekjur samstæðu úr 2.274 m.kr. í 2.539 m.kr. eða um 10%. Skýringu tekjuaukningar er fyrst og fremst að finna í því að íbúum fjölgaði nokkuð á milli ára samhliða vaxandi umsvifum við höfnina og almenns góðs ástands í atvinnulífi landsins.

Þegar litið er til reksturs málaflokka birtist kunnugleg mynd fyrir þá sem gera sér það til dundurs að lesa reglulega ársreikninga íslenskra sveitarfélaga. Sú mynd sýnir að í raun snýst kjarnarekstur sveitarfélagsins um þrjá málaflokka, þ.e.a.s. fræðslu- og uppeldismál sem standa fyrir 47% af rekstrargjöldum aðalsjóðs, æskulýðs- og íþróttmál sem standa fyrir 14% og félagsþjónusta 13%. Samtals taka þessir þrír málaflokkar því til sín 74% af rekstrargjöldunum.

Skuldastaða sveitarfélagsins Ölfuss er í góðu jafnvægi. Heildarstaða langtímaskulda samstæðu er 1.536 m.kr. og tekin voru um 390 milljónir í ný lán á árinu. Þar af lang mest vegna lífeyrisgreiðslna til Brúar, auk þess sem framkvæmt var við nýtt fimleikahús og útisvæði sundlaugar. Skuldaviðmið eins og það er skilgreint í reglugerð um fjármál sveitarfélaga stendur í 77,89% en hámarkið er 150%.

Fáum dylst að höfnin í Þorlákshöfn hefur tekið stakkaskiptum með tilkomu siglinga Smyril line. Í dag þjónustar fyrirtækið inn- og útflutningsaðila á ekjuskipinu Mykines sem heldur uppi vikulegum siglingum milli Þorlákshafnar og Rotterdam. Rekstrartekjur hafnarinnar árið 2018 voru 229 m.kr. og hækka um 24%. Rekstrarniðurstaða hafnarinna voru rétt tæpar 86 m.kr. og framlegðarhlutfall af tekjum því um 20%. Mat flestra er að uppbygging hafnarinnar sem inn- og útflutningshafnar sé rétt að hefjast og árangurinn, svo magnaður sem hann er, sé einungis reykurinn af réttinum. Frekari vöxtur sé framundan.

Niðurstaða ársreikninga er bæjarstjórn fyrst og fremst hvatning til að gæta þess áfram að missa ekki tökin á skulda og útgjaldahliðinni. Vandaður rekstur er það sem helst tryggir öfluga og góða þjónustu. Í Ölfusi hefur verið byggt upp sterkt þjónustunet þar sem skólarnir og íþróttaaðstaðan eru meðal helstu flaggskipa þjónustunnar. Sveitarfélagið Ölfus vinnur nú að því að nýta þá sterku stöðu sem birtist í ársreikningunum til að bæta þjónustu við bæjarbúa enn frekar og eftir atvikum að bjóða nýja íbúa velkomna. Á næstu vikum verða auglýstar hagkvæmar lóðir undir íbúðarhúsnæði auk þess sem verið er að leggja lokahönd á skipulag nýrra atvinnulóða á athafnarsvæði hafnarinnar.

Hamingjan er hér!

Elliði Vignisson, bæjarstjóri

Nýjar fréttir