3.9 C
Selfoss

Ferðamenn njóta útsýnis frá sjónarhóli sauðkindarinnar

Vinsælast

Hjónin Rannveig Ólafsdóttir og Guðmundur Markússon í Mörtungu á Síðu í Skaftárhreppi eru hefðbundnir íslenskir sauðfjárbændur í húð og hár, Rannveig verandi af fimmtu kynslóð sauðfjárbænda í Mörtungu. Samhliða búskapnum reka þau ferðaþjónustufyrirtækið Mörtunga – Iceland Bike farm sem mætti útleggja sem hjólabúgarð á því ylhýra.

Hugmyndin gengur út á að fara með ferðamenn upp á heiðarnar fyrir austan Kirkjubæjarklaustur á reiðhjólum. Kindagöturnar hafa fengið nýtt hlutverk sem reiðhjólastígar um þá ægifögru náttúru sem fáir hafa séð nema bændur í smalamennsku og íslenska sauðkindin. Fjallið Kaldbakur gnæfir yfir öllu og fjölbreytileiki náttúrunnar á þessum stað óviðjafnanlegur með öllum sínum gljúfrum og fossum. Fyrirtæki þeirra hjóna var valið til að taka þátt í viðskiptahraðlinum Startup tourism sem hefur heilmikla þýðingu fyrir lítið fyrirtæki eins og þeirra. Afar margir sækja um en fámennur hópur kemst að lokum inn í hraðalinn. Það er því ákaflega mikil viðurkenning á starfi þeirra hjóna.

 Hvernig kom hugmyndin til?
„Hugmyndin að Hjólabúgarðinum, eða Bike Farm, kom fyrst til þegar við vorum í smalamennskum. Við horfðum á eftir kindastrollunni á undan okkur og hugsuðum hvað það væri frábært ef fleiri en bara við og kindurnar gætu fengið að sjá þetta ótrúlega landslag. Mummi hefur hefur verið á fjallahjóli allt sitt líf og hann sá fljótlega endalausa möguleika í öllum þessum kindagötum, segir Rannveig.“

„Síðasta sumar byrjum við svo að vinna í 25 km löngum kafla af kindagötu og gerðum hann að hjólaslóða. Til þess að slóðinn yrði sem allra bestur og vandaðastur fengum við kanadískan atvinnuhjólara hingað til lands sem kenndi okkur að gera slóða á heimsklassa. Úr þessu varð svo til fyrsta náttúrulega hjólalandið á Íslandi,“ segir Mummi

 Hvernig fellur þetta að sauðfjárræktinni?
„Sauðfé hefur mótað landið í árhundruð með sínum kindagötum sem að við notum nú til að hjóla eftir, svo að það má segja að kindurnar hafi lagt grunninn að þessu fyrir okkur.

Hjólaferðirnar falla vel að sauðfjárræktinni en sumarið er háannartími svo að það krefst svolitlar hagræðingar og skipulags. Svo fáum við ómetanlega hjálp frá fjölskyldu og vinum til að allt gangi smurt,“ segja hjónin.

 Hvernig taka ferðamenn þessari tegund ferðamennsku?
„Viðbrögðin hjá erlendum ferðamönnum eru ótrúlega góð og einlæg. Þeim finnst fyrst og fremst skemmtilegt að koma heim á bæ og sjá að þar er bara heimilið okkar. Við erum með ástsjúkan hund sem að tekur á móti öllum ásamt öðrum dýrum eins og kött, hænur, hesta og fé sem er líka mjög vinsælt. Þegar fólk byrjar svo hjólaferðina, á það ekki til orð yfir allri þeirri fegurð sem að við höfum í bakgarðinum okkar. Einnig nefna margir að við séum einu íslendingarnir (locals) sem að þau hafa hitt síðan að þau komu til landsins, segir Rannveig og Guðmundur tekur undir.“

Eru Íslendingar að nýta sér ferðirnar?
„Síðasta sumar létum við hjólahópa á fésbók vita af okkur og það kom okkur skemmtilega á óvart hversu góð viðbrögð við fengum. Nokkrir vinahópar heimsóttu okkur, auk þess að við héldum námskeið fyrir Íslendinga sem fylltist um leið. Við munum endurtaka það í sumar. Það er líka gaman að segja frá því að helmingur af okkar viðskiptavinum síðasta sumar voru einmitt Íslendingar.“

Hvaða þýðingu hefur hraðallinn fyrir fyrirtæki eins og ykkar?
„Startup Tourism hefur heilmikla þýðingu fyrir svona nýtt og lítið fyrirtæki eins og okkar. Þarna fáum við tækifæri til að hitta annað fólk sem er í nákvæmlega sömu stöðu og við, en tíu fyrirtæki voru valin inn í hraðalinn af 128 umsækjendum. Í hraðlinum er farið yfir öll helstu atriði sem skipta máli þegar verið er að stofna fyrirtæki. Meðal annars er fullt af frábærum fyrirlestrum og þá fáum við einkafundi eða svokallaða mentora fundi þar sem við fáum ráðleggingar og hugmyndir frá fjölmörgum aðilum sem hafa mikla reynslu í atvinnurekstri og hafa mikið að gefa. Hraðallinn gaf okkur bæði tækifæri til að viðra hugmyndir okkar við reynslumikið fólk og tíma sem við nauðsynlega þurftum til þess að vinna í fyrirtækinu, en við eigum tvö leikskólabörn og sauðfjárbú svo tíminn er dýrmætur,“ segja Rannveig og Guðmundur að lokum.

Nýjar fréttir