-7 C
Selfoss
Home Fréttir Úr Grímsnesinu góða

Úr Grímsnesinu góða

0
Úr Grímsnesinu góða
Bjarni Þorkelsson.

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hefur þegar á fyrsta ári kjörtímabilsins 2018–2022 stigið nokkur skref, sem ætla má að séu til heilla fyrir samfélagið. Til upprifjunar fyrir lesendur má hér nefna ívilnanir fyrir barnafólk og eldri borgara, sem kynntar hefur verið rækilega í fundargerðum sveitarstjórnar á heimasíðu GogG og í Dagbók sveitarstjórnar á Fjasbók.

Nú stendur fyrir dyrum að endurskoða samfélagsstefnu GOGG. Sett hefur verið af stað vinna í öllum nefndum sveitarfélagsins sem aðkomu hafa að eða tengst geta samfélagslegum markmiðum sveitarfélagsins. Eftir undirbúningsfundahöld í öllum slíkum nefndum, var haldinn íbúafundur fimmtudaginn 21. mars – með þátttöku flestra nefndarmanna, allra sveitarstjórnarmanna og fáeinna íbúa annarra!

Fundurinn var vel heppnaður, umræður urðu fjörugar og fram komu fjölbreytt sjónarmið sem vonandi verður haldið til haga og unnið meira með í þeirri vegferð sem framundan er við gerð samfélagsstefnunnar. Næsti fundur um þau málefni hefur verið boðaður 29. apríl, en full ástæða er til þess fyrir alla sem hér eiga hlut að máli að hræra í sínum hugarpotti og láta vita jafnharðan ef örlar á markverðum og/eða róttækum hugmyndum, sem nýst gætu og orðið málefninu til framdráttar. Raunar hefur oddviti vor hvatt til almennrar þátttöku í slíkri hugmyndavinnu og boðað að gagnvegir liggi til nefndarformanna og sveitarstjórnarmanna í gegnum síma og tölvupóst, ef því er að skipta!

Rannsóknasetur á Laugarvatni

Nú ætla ég að gera lykkju á leið mína og segja frá viðburði sem ég sótti í liðinni viku, nefnilega opnunarhátíð Rannsóknaseturs sveitarstjórnarmála á Laugarvatni. Þar héldu stuttar ræður nokkrir framámenn, eins og fara gerir, og töluðu lipurlega um hlutverk og nauðsyn þess að setja slíkt þekkingarsetur á fót.

Hjá einum ræðumanni (Björgu Ágústsdóttur) kom fram að sveitarstjórnir hafa stjórnunar- og eftirlitshlutverk, eins og allir vita. Þær fara með vald og veita þjónustu. Björg talaði hins vegar meira um umboðshlutverk sveitarstjórna og sveitarstjórnarmanna. Í því felst, að sögn Bjargar, m.a. þetta:

  • að gegna leiðtogahlutverki, leiða breytingar, skapa jarðveg fyrir breytt hugarfar. Þetta leiðtogahlutverk er ef til vill stærsta hlutverk sveitarstjórnarmanna
  • að breyta hugarfari er jafnvel fremur á færi sveitarstjórna en landsstjórnar. Miklar breytingar eru framundan, þær mest knýjandi tengjast loftslagsmálum. Út um víða veröld leiða borgar- og sveitarstjórnir þær breytingar
  • að tryggja það að viðbrögð við þessum breytingum byggist á þekkingu og rannsóknum – og finna leiðir til að láta hvort tveggja rata inn í stefnu sveitarfélaga
  • að fá ólík sjónarmið að borðinu, fá fólk til að tala saman, efla virkt íbúalýðræði. Það er löngu úreltur hugsunarháttur að sveitarstjórnarfólk sé kosið til að taka allar ákvarðanir út kjörtímabilið, án samráðs og samvinnu.
  • að koma sér upp markvissri aðferðafræði til að láta lýðræðið virka og tryggja áhrif íbúa og mismunandi hópa s.s. ungmenna, nýbúa, aldraðra o.s.frv.
  • að leiða þróun, virkja þörf og forvitni, líka með sérstöku tilliti til skólastarfs og uppeldismála.
  • að innleiða staðaranda í skipulagsstefnu sveitarfélaga, vera ævinlega á tánum að hyggja að sérstöðu samfélagsins.

Tilraun yðar einlægs til að standa undir nafni sem sveitarstjórnarmaður
Að þessu sögðu, og fremur en að fljóta nú sofandi að feigðarósi, held ég nú áfram og kynni mína persónulegu framtíðarsýn á landsvísu um nauðsyn þess að, a) leikskóli verði gjaldfrjáls, b) fæðingarorlof þurfi að lengja svo um munar og c) almennan vinnutíma þurfi að stytta. Þessar róttæku breytingar eru nauðsynlegar – kannski lífsnauðsynlegar – vegna barnanna okkar. Uppeldis- og fjölskyldustefnu verðum við að taka upp þeirra vegna, ef ekki á illa að fara. Og við höfum ekki endalausan tíma til að bregðast við. Það sýna allar rannsóknir, samanburðarmælingar og umfjöllun um uppeldis-, fræðslu- og heilbrigðismál og mörg fleiri álitamál sem daglega ber á góma hér á landi.

Til þess að koma þessu í kring þarf samhent átak ríkis og sveitarfélaga. En – þótt almennt sé ekki hægt að ætlast til að sveitarfélögin geti ein axlað þessa ábyrgð, mætti hugsa sér að að skref í áttina yrðu tekin. Á íbúafundinum sem vitnað var í hér að ofan, komu fram athyglisverðar hugmyndir um að hægt væri að koma böndum á eða stýra dvalartíma leikskólabarna – til heilla fyrir alla aðila – með því að hafa vistunartímann misdýran. Þannig yrði til dæmis ódýrt að hafa börnin í skólanum fyrri hluta dags, en öllu dýrara síðdegis, til dæmis frá því kl. 2. Er hugsanlegt að slík verðstýring geti haft heilladrjúg áhrif á samverustundir fjölskyldnanna? Ef svarið er já, þá væri til nokkurs barist.

Helstu rök
En hver eru helstu rök fyrir því að Grímsnes- og Grafningshreppur taki ákveðin skref í þessa átt, hafi hann til þess burði? Sum þeirra raka eiga auðvitað við alls staðar á byggðu bóli, önnur eiga ef til vill sérstaklega við hér í sveit. Gáum að því:

  1. Barnvænt samfélag er sjálfsagt keppikefli.
  2. Jafnrétti allra barna til skólanáms og skólavistar yrði betur tryggt með þessum hætti, óháð efnahag foreldra – á þeim jafna rétti má aldrei leika hinn minnsti vafi.
  3. Einstakir þættir, sem nefndir hafa verið, eru komnir til framkvæmda eða eru til skoðunar hjá nokkrum sveitarfélögum, þótt ekki sé kunnugt hvort nokkurs staðar gildi allt þrennt – ennþá: Gjaldfrjáls leikskóli, gjaldfrjálsar máltíðir fyrir skólabörn, gjaldfrjáls námsgögn fyrir öll skólabörn.
  4. Segja má að hér sé um að ræða eðlilegt skref í þróun skólamála í Grímsnes- og Grafningshreppi, næst á eftir því að
  5. a) flytja skólann á Borg,
  6. b) taka skólann í eigið fang,
  7. c) sameina leik- og grunnskóla í eina stofnun og
  8. d) reka heildstæðan grunnskóla.

Þetta voru umdeildar ákvarðanir, sem taldar voru orka tvímælis þá er teknar voru, en munu vonandi allar reynast gæfuspor í fræðslumálum sveitarfélagsins.

  1. C) liður í upptalningunni hér að ofan, sem feitletraður er, gefur sérstakt tilefni til þess að hugað sé að jafnræði allra nemenda Kerhólsskóla, þótt séu á mismunandi skólastigi. Þannig ætti að vera hægt að flýta fyrir því að almennt sé litið á skólagöngu barna sem heildstætt ferli, sem standi frá 1-2 ára aldri og út allan leik- og grunnskólann.

Lokaorð
Hér fer vel á því að vitna í orð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, þegar hún kynnti til sögu tímabæran Barnamenningarsjóð, sem Alþingi samþykkti að koma á fót á hátíðafundinum á Þingvöllum 18. júlí sl. : ,,…þau samfélög sem hafa trú á framtíðinni hlúa einkum og sér í lagi að börnum sínum.“ Svipuð afstaða kom fram í ræðu Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, við sama tækifæri: Að samfélög yrðu metin eftir því hversu vel þau gerðu við börn sín.

Bjarni Þorkelsson, sveitarstjórnarmaður, Þóroddsstöðum Grímsnesi.