1.7 C
Selfoss

Fjáröflunartónleikar Lionsklúbbs Hveragerðis

Vinsælast

Lionshreyfingin var stofnuð fyrir meira en 100 árum og er í dag stærsta þjónustuhreyfing heimsins, starfar í 206 löndum með 1,4 miljón félaga og þetta árið stjórnað af Íslendingi, Guðrúnu Björt Yngvadóttir, alþjóðarforseta hreyfingarinnar.

Hreyfingin hefur sett sér ákveðin markmið og siðareglur til að starfa eftir og fjármagnar rekstur sinn með félagsgjöldum til að tryggja að allur ágóði af uppákomum sem Lionshreyfingin stendur fyrir fari óskipt í þau verkefni sem unnið er að á hverjum tíma.

Lionsklúbbur Hveragerðis, sem hefur starfað í 49 ár, stendur fyrir árlegu tónleikahaldi og að þessu sinni á fimmtudaginn 11. apríl nk. þar sem Gospelkór Lindakirkju undir stjórn Óskars Einarssonar býður upp á það besta úr heimi gospeltónlistarinnar í Hveragerðiskirkju. Flestar fjáraflanir LKH fara til til að þjóna íbúum Hveragerðis og nágrennis og varð að þessu sinn fyrir valinu að útvega án endurgjalds til þeirra sem þess þurfa svokallað Vefvarp sem Blindrafélagið hefur þróað fyrir sína félagsmenn en gagnast vel þeim sem hafa skerta sjón eða heyrn. Þetta verkefni Lionsklúbbsins er unnið í samvinnu Félag eldri borgara í Hveragerði sem ætlar að hjálpa með þarfagreiningu Vefvarpsins fyrir félagsmenn sína. Tilgangur þessa tækis er að sporna við því að fólk einangrist, því tækið auðveldar aðgang að fréttum og ýmissi afþreyingu s.s. hljóðbókum úr Hljóðbókasafni Íslands svo og greinar sem lesnar eru úr blöðum og að hlusta á texta með leiknu efni RUV  svo sem bíómyndum o.fl.

Fjáröflunartónleikar Lionsklúbbs Hveragerðis eru haldnir í Hveragerðiskirkju. Þeir byrja kl. 20.00 þann 11. apríl nk. og er miðasala hafin í Shellskálanum Hveragerði og er miðaverð 2.500 krónur. Einnig verða seldir miðar við innganginn tónleikadaginn þann 11. apríl þar sem posi verður til staðar. ÁBE.

Nýjar fréttir