-1.1 C
Selfoss

Fræðslufundur um einhverfu í Þingborg á morgun

Vinsælast

Fræðslufundur um einhverfu og leiðir í skipulagðri kennslu með börnum og unglingum verður haldinn í Félagsheimilinu Þingborg á morgun fimmtudaginn 4. apríl kl. 13:30–15:30. Fundurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

Á fundinum verður farið yfir einkenni einhverfu; Einkenni í félagslegu samspili, einkenni í máli og tjáskiptum og sérkennilega áráttukennda hegðun. Einnig verður fjallað um erfiðleika í skynúrvinnslu hjá börnum og unglingum og hvernig hún getur komið fram í skólanum og verið hamlandi fyrir nemandann. Sú umfjöllun byggir m.a. á umsögnum ungs fólks í bók Jarþrúðar Þórhallsdóttur „Önnur skynjun, ólík veröld – lífsreynsla fólks á einhverfurófi“, en það er viðtalsrannsókn sem kom út árið 2013.

Kynntar verða leiðir í skipulagðri kennslu fyrir börn á einhverfurófinu, bæði aðferðir sem henta einstökum nemendum en einnig leiðir sem virka um leið mjög vel fyrir alla nemendur deildar/bekkjar. Þá verður fjallað um mikilvægi þess að aðlaga kennsluumhverfi á leikskóladeild / í skólastofu og á öðrum svæðum í skólanum að þörfum barna á einhverfurófi en þær leiðir geta oftast hentað öðrum nemendum í skóla án aðgreiningar.

Fyrirlesarar:
Hrafnhildur Karlsdóttir, kennsluráðgjafi og leik- og grunnskólakennari. Hún hefur starfað sem ráðgjafi í skólaþjónustu í 15 ár og sérhæft sig í málþroska ungra barna og einnig í einhverfurófinu og skipulagðri kennslu. Hún hefur meðal annars sótt nám varðandi einhverfu og skipulagða kennslu hjá háskólanum í Norður Karolinu í „TEACCH Autism Program“.
Kolbrún Sigþórsdóttir, kennsluráðgjafi og grunnskólakennari. Hún hefur starfað í grunnskóla í rúmlega 20 ár bæði sem kennari og í skólastjórnun en hún er með M.ed. gráðu frá HÍ í Stjórnunarfræðum menntastofnana. Einnig hefur hún sérhæft sig í hegðunarmótun út frá ART (Aggression Replacement Training) og lokið námi í undirstöðuatriðum hugrænnar atferlismeðferðar frá Endumenntun Háskóla Íslands. Kolbrún hefur starfað sem ráðgjafi í skólaþjónustu í 3 ár.

Skráning á fræðslufundinn fer fram á heimasíðu Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings www.arnesthing.is.

Um einhverfu

Einkenni einhverfu geta komið fram á misjöfnum tíma á fyrstu aldursárunum og birst á mismunandi hátt. Börn á einhverfurófi glíma við ákveðnar hömlur í félagslegum samskiptum og eiga því sum hver erfitt með að eignast vini. Barnið á yfirleitt erfitt með allar breytingar og að skipta úr einni athöfn í aðra t.d. að fara úr og í skóla og smávægilegar breytingar á umhverfi hafa veruleg áhrif á það. Það getur stundum verið erfitt að skilja þau sem hafa miklar hömlur í máli og tjáskiptum og áráttur geta truflað þau. Stundum er skynúrvinnsla þeim erfið og getur það haft þau áhrif að þau borða ekki ákveðnar matartegundir og eiga erfitt með að lesa í umhverfið sitt og jafnvel svipbrigði fólks. Eins og fyrr segir birtist einkenni á ólíkan hátt og eru mismunandi hamlandi. Engir tveir einstaklingar á einhverfurófi eru eins. Mikilvægt er að kennarar og starfsfólk skóla þekki einkenni einhverfurófsins og geti unnið með nemendur á þeirra forsendum og hjálpað þeim að læra á sig sjálf og umhverfi sitt. Ef þekking á einhverfu er ekki fyrir hendi og einstaklingur á einhverfurófi fær ekki viðeigandi stuðning hefur það yfirleitt neikvæð áhrif á heilsu og lífsgæði.

Einhverfan getur hins vegar líka verið styrkleiki ef nemandinn mætir skilningi og fær einstaklingsmiðaðan stuðning þar sem að hann er styrktur í að nýta hæfileika sína og sérkunnáttu til að ná árangri.

Mikilvægt er fyrir alla sem vinna með börn á einhverfurófi að hafa í huga að oft er um að ræða duglega krakka sem þurfa mismunandi mikla aðstoð og stýringu í skólanum. Þeir eru skemmtilegir, þrautseigir og útsjónarsamir einstaklingar sem mæta í skólann á hverjum einasta degi þar sem þeir þurfa bæði að takast á við námslegar kröfur sem og að takast á við félagslegar hömlur og áskoranir einhverfunnar.

Nýjar fréttir